Viðskipti innlent

SEB bankinn í Svíþjóð velur lausn frá dótturfélagi Nýherja

SEB banki í Svíþjóð hefur tekið í notkun PeTra regluvörslukerfi frá Applicon, dótturfélagi Nýherja, en kerfinu er ætlað að tryggja verklag og eftirlit með verðbréfaviðskiptum bankastarfsmanna og opinberra starfsmanna. Um 10 þúsund notendur eru nú þegar að PeTra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja.

„Reynsla SEB banka í sjálfvirku eftirliti með verðbréfaviðskiptum styrkir vöru okkar og að fá bankann í raðir viðskiptavina er mikil viðurkenning fyrir okkur og okkar kerfi," segir Guðjón Karl Þórisson, sölu- og markaðsstjóri Applicon á Íslandi.

SEB hefur um árabil verið leiðandi á sænskum markaði í sjálfvirku eftirliti með verðbréfaviðskiptum starfsmanna sinna. SEB banki er meðal stærstu banka á Norðurlöndunum, en hjá honum starfa um 17.000 starfsmenn í yfir 20 löndum.

PeTra regluvörslukerfið er nú komið í rekstur hjá mörgum af stærstu bönkum Norðurlanda, en meðal þeirra má nefna Nordea, Öhman, Carnegie og nú SEB. Stefnt er að því að bjóða lausnina til fyrirtækja á Íslandi á þessu ári.

Applicon er norrænt ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki á sviði viðskiptahugbúnaðar. Hjá fyrirtækinu starfa um 170 manns á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð. Applicon er í eigu Nýherja.

Nánari um PeTra regluvörslukerfið má finna hér: www.applicon.is og hjá söludeild Applicon.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×