Viðskipti innlent

MP banki tapaði 484 milljónum 2011 eftir skatta

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka.
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka.
MP banki tapaði 484 milljónum á síðasta ári eftir skatta, en jákvæður viðsnúningur varð á seinni helmingi ársins samanborið við fyrri helminginn. Á fyrra hluta ársins var tap fyrir skatta 681 milljón en á seinni hlutanum var hagnaður um 140 milljónir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá MP banka vegna uppgjörsins.

Eigið fé bankans er 19,2 prósent en viðmið Fjármálaeftirlitsins er 16 prósent, en samkvæmt lögum er lágmarkið 8 prósent.

Fréttatilkynningin bankans vegna rekstrarársins 2011 er eftirfarandi:

"Viðsnúningur hefur orðið á afkomu MP banka fyrr en áætlanir stjórnenda bankans gerðu ráð fyrir. 681 milljóna tap fyrir skatta varð á starfseminni fyrri hluta ársins 2011 en hagnaður á seinni hluta ársins. Heildartap ársins varð því 541 milljón fyrir skatta og 484 milljónir eftir tekjuskatt og sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.

Hagnaður á undan áætlun

Hagnaður fyrir skatta seinni hluta ársins varð 140 milljónir. Á þriðja ársfjórðungi var tapið 166 milljónir en hagnaður á fjórða ársfjórðungi var 306 milljónir. Gert var ráð fyrir tapi út árið 2011 í rekstraráætlun, með batnandi afkomu jafnt og þétt á meðan starfsemi bankans næði fullum afköstum. Niðurstaðan er verulega umfram áætlanir.

Lánasafn bankans óx um 76% frá júnílokum og til ársloka en útlán voru þá 13,3 milljarðar króna. Hreinar vaxtatekjur jukust enn meira eða frá því að vera neikvæðar um 45 milljónir króna á 2. ársfjórðungi yfir í að vera jákvæðar um 323 milljónir á 4. ársfjórðungi.

Jafnframt varð veruleg aukning í þóknanatekjum en þær voru 72 milljónir á 2. ársfjórðungi en 563 milljónir á 4. ársfjórðungi.

MP banki er vel fjármagnaður. Innlán námu alls 36,6 milljörðum króna við lok ársins 2011. Eigið fé bankans er 5,1 milljarðar og eiginfjárhlutfall bankans var 19,2% við árslok. Samkvæmt lögum skal hlutfallið vera að lágmarki 8% og er því vel yfir lögbundnum mörkum.

Bankinn hefur afar sterka lausafjárstöðu. Fjármögnunarþekja (NSFR) er 274% og lausafjárþekja (LCR) yfir 1000%. Hvoru tveggja er vel umfram Basel III viðmið en þau gera ráð fyrir 100%."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×