Viðskipti innlent

Gunnar er embættismaður

Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur réttarstöðu sem embættismaður ríkisins að mati Oddnýjar G. Harðardóttur fjármálaráðherra. Þetta kemur fram í bréfi sem hún sendi lögmanni Gunnars í dag og RÚV greindi frá.

Lögmaður Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, krafðist þess að fjármálaráðherrann úrskurðaði um réttarstöðu Gunnars samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Úrskurðarins var krafist út af deilu Gunnars við stjórn FME vegna boðaðrar uppsagnar. Hart er deilt um lögmæti uppsagnarinnar sem Gunnar telur efnislega ólögmæta.

Í bréfi lögmanns Gunnars kom fram að stjórn stofnunarinnar féllist ekki á að Gunnar nyti réttarstöðu embættismanns og virtust vera uppi ráðgerðir um að framhalda uppsagnarferlinu algerlega án tillits til þess.

Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna er skylt að veita starfsmanni áminningu og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum. Þá er einungis heimilt að víkja starfsmönnum ríkisins tímabundið frá störfum, og skal þá nefnd sérfróðra manna rannsaka hvort rétt sé að veita honum lausn að fullu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×