Viðskipti innlent

Býst við meiri hækkunum á fasteignaverði

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Ísland er það land í Evrópu þar sem fasteignaverð hækkaði mest á síðasta ári. Hækkunin var meiri hér en í Noregi þótt þar sé talað um fasteignabólu. Formaður félags fasteignasala segir að fasteignaverð eigi eftir að hækka meira á næstu misserum.

Í nýútkominni skýrslu hinnar konunglegu stofnunar löggildra eftirlitsmanna, er fasteignamarkaðurinn í tuttugu og þremur evrópulöndum greindur miðað við þróun fasteignaverðs og vaxta undanfarin tvö ár. Þegar litið er á hækkun fasteignaverðs trónir Ísland á toppnum með tæplega tíu prósenta hækkun, fast á hæla Íslands er Noregur en þar hefur verið fasteignabóla undanfarin ár og er þetta annað árið í röð sem hækkun þar er meiri en fimm prósent milli ára. Í skýrslunni segir að það komi á óvart að Ísland sé á toppnum en hækkunin sé þó einungis lítið stökk miðað við það gríðarlega verðhrun sem varð hér á landi árið 2008. Raunverðshækkunin hér á landi með tilliti til verðbólgu er þó einungis þrjú komma fimm prósent.

„Ég tel að þetta sé að markaðurinn sé að leiðrétta sig, hann fór mikið niður, vísitala íbúðaverðs fór í 300, nú er hún í 333 og það eru fimm ár síðan veðrið var eins og það er í dag, en hins vegar hafa lánin hækkað um 40 prósent svo þetta er í raun og veru eitthvað sem þarf að verða að markaðurinn hann hækki, enda á hann mikið inni, byggingakostnaður hefur tvöfaldast og launin hækkað svo ég tel þetta vera ágætt og vonandi á markaðurinn eftir að koma enn frekar og sterkar inn með meiri hækkunum á þessu ári," segir Ingibjörg Þórðardóttir, formaður félags fasteignasala.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×