Viðskipti innlent

Lyf og heilsa greiði 100 milljóna sekt

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti í dag úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála að Lyf og heilsa skyldi greiða 100 milljónir króna í sekt vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu gagnvart Apóteki Vesturlands. Þetta kemur fram á vefsíðu Samkeppniseftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á ætluðum brotum Lyfja og heilsu með húsleit í september 2007. Rannsóknin hófst í kjölfar ábendinga um að fyrirtækið hefði gripið til aðgerða til að hindra að Apótek Vesturlands, sem þá var nýstofnað, næði að hasla sér völl á Akranesi.

Árið 2010 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að Lyf og heilsa hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína með skipulagðri atlögu gegn Apóteki Vesturlands sem beinlínis hafði það að markmiði að raska samkeppni. Fólust aðgerðir Lyfja og heilsu annars vegar í stofnun svonefnds vildarklúbbs sem var ætlað að tryggja að mikilvægir viðskiptavinir myndu ekki hefja viðskipti við Apótek Vesturlands. Hins vegar fólust aðgerðirnar í verulegum afsláttum á mikilvægum lyfjum og voru þeir aðeins í boði á Akranesi, að mati Samkeppniseftirlitsins.

Lyf og heilsa skaut málinu til úrskurðarnefndar um samkeppnismál sem lækkaði stjórnvaldssektina sem Samkeppniseftirlitið hafði lagt á úr 130 milljónum í 100 milljónir. Héraðsdómur staðfesti þá niðurstöðu í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×