Viðskipti innlent

Bensínverð gæti hækkað enn meira ef átök brjótast út í Íran

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hermann Guðmundsson er forstjóri N1 og fylgist vel með olíumarkaðnum.
Hermann Guðmundsson er forstjóri N1 og fylgist vel með olíumarkaðnum.
Sú ákvörðun Írana að setja sölubann á olíu til Bretlands og Frakklands mun líklegast ekki hafa áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu til skamms tíma, segir Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, í samtali við Vísi. Almennur ótti við að það skelli á strið vofir þó yfir.

Hermann segir ef Íranir setji sölubann á Frakka og Breta fari þeir einfaldlega á aðra markaði og kaupi olíuna þar. Svo muni aðrir koma í þeirra stað og kaupa olíuna af Írönum. „Ég myndi halda að þetta ætti ekki að hafa nein umtalsverð áhrif til skemmri tíma. En þetta er allt liður i þvi sem við erum búin að vera að horfa uppá síðustu tvo mánuði. Vesturlönd eru svolítið að skaka vopnum framan í Íran og Íranir eru svolítið að skella skollaeyrunum við. Þeir vilja halda frammi sínum rétti til að fara sínu fram í sínum kjarnorkutilraunum. Allt gæti þetta síðan leitt af sér vopnuð átök sem myndu án efa hafa veruleg áhrif á olíumarkaðinn vegna þess að Íran er jú eitt af stóru löndunum á olíumarkaðnum," segir Hermann.

Það er því allt eins líklegt að til langs tíma myndu átökin hafa áhrif á heimsmarkaðsverð á olíu. Þar með er líklegt að Íslendingar þyrftu að punga út fleiri krónum fyrir bensínlítrann. Í dag kostar hann minnst 250 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×