Lífið

Þúsund súkkulaðibrosum verður dreift á Austurvelli á morgun

Þúsund súkkulaðibrosum verður dreift á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið á morgun laugardag klukkan 14:00. Þetta er eitt af mörgum atriðum til að lyfta upp andanum á hvatningarhátíð Bergljótar Arnalds sem ber heitið Kærleikar en súkkulaðibrosin er hugmyndasmíð Geggu myndlistarkonu.

Markmið hátíðarinnar er að efla samkennd, veita hvatningu, hlýju og styrk á þessum erfiðu tímum. Eldgleypar, harmónikka, englar, tónlistarmenn, kórar, leikarar, Sönglist og margir fleiri mæta og saman fögnum við lífinu, ástinni og öllu því sem sameinar okkur!Mörg sveitafélög veita Kærleikunum liðsinni sitt.

Akureyrarbær gefur íshjörtu sem munu prýða sviðið og Árborg gefur 50 hjartalaga gasblöðrur til leikanna.

Þá færir Kópavogsbær okkur englabúninga með hjartans kveðju en englavængirnir flugu sjálfir til Íslands frá norsku hátíðinni Hjertefred rétt fyrir utan Osló.

Björgunarsveitirnar verða á staðnum og Veraldarvinir bjóða upp á heitt kakó.Þá er stefnt að því að slá heimsmet í hópknúsi og ætlar leikhópurinn Perlan að sýna hvernig best er að faðma. Svavar Knútur ætlar að syngja fyrir okkur um kærleikann og norski sendiherrann segir nokkur orð um hvað kærleikurinn er mikils virði þegar heil þjóð gengur í gegnum erfiðleika, eins og Norðmenn gengu í gegnum í fyrra eftir hroðaverkin í Útey.

Í lokin verður lagt upp í Kærleiksgöngu og gengið hringinn í kringum tjörnina með tilheyrandi götuleikhúsi og tónlist. Svo munu kórar Reykjavíkur og nágrennis taka lagið fyrir framan Iðnó í lok hátíðarinnar undir stjórn Gróu Hreinsdóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.