Innlent

Plus500 býður fjárfestum að veðja á verðbreytingar

Nú hefur fyrirtækið opnað heimasíðu á íslensku undir .is léni og reynir þar að lokka íslendinga í viðskipti.
Nú hefur fyrirtækið opnað heimasíðu á íslensku undir .is léni og reynir þar að lokka íslendinga í viðskipti. mynd/Plus500.is
Bresk vefsíða sem býður fjárfestum upp á skuldsetta stöðutöku í hlutabréfum, hrávöru og gjaldmiðlum án þess að raunveruleg viðskipti liggi að baki stöðutökunni reynir nú að lokka íslenska fjárfesta í viðskipti. Fjármálaeftirlit erlendis hafa varað við síðunni.

Plus500 er breskt fyrirtæki sem rekur fjárfestaþjónustu á netinu á heimasíðunni plus500.com. Fyrirtækið gerir fjárfestum kleift að opna reikning í gegnum netið með kreditkorti, og byrja svo strax að veðja á verðbreytingar á mörkuðum, hvort sem er með hlutabréf, hrávöru eins og gull og olíu eða gjaldmiðla.

Þetta gerir fyrirtækið með svokölluðum CFD samningum, en það eru afleiðusamningar sem fela í sér að fjárfestarnir eiga aldrei eignirnar sem eru undirliggjandi - fjárfestirinn græðir til dæmis þegar hlutabréfaverð fyrirtækis sem hann hefur veðjað á hækkar, en hann á þó ekki bréfin og fær ekki arð eða atkvæðisrétt á aðalfundi. Í ofanálag er stöðutakan skuldsett, svo litlar breytingar á verði eignanna geta orsakað mikið tap.

Nú hefur fyrirtækið opnað heimasíðu á íslensku undir .is léni og reynir þar að lokka íslendinga í viðskipti.

Plus500 fékk starfsleyfi hjá breska fjármálaeftirlitinu árið 2010, en fyrir þann tíma höfðu fjármálaeftirlit þó nokkurra ríkja varað þegna sína við fyrirtækinu, þar á meðal Noregur, Belís og Kýpur. Fréttastofa hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ræða við forsvarsmenn fyrirtækisins um helgina, bæði í gegnum uppgefin númer hjá breska fjármálaeftirlitinu og tölvupóst, án árangurs.

Litlar upplýsingar er að finna um skráða aðstandendur fyrirtækisins. Nokkur fjöldi netverja hefur kvartað yfir fyrirtækinu á erlendum spjallsíðum, og hafa meðal annars sakað það um óheiðarlega viðskiptahætti.

Viðmælendur fréttastofu hjá Fjármálaeftirlitinu könnuðust ekki við að málefni fyrirtækisins hefðu komið inn á borð eftirlitsins hér á landi, en Unnur Gunnarsdóttir, lögfræðingur FME, segir að almennt gildi að fyrirtæki með starfsleyfi innan EES hafi mjög víðtækar heimildir til að halda úti starfsemi þvert á landamæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×