Viðskipti innlent

Brynjar Níels: Óheppilegt að ráðherra tjái sig um dómsmál

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ummæli Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um Landsdómsmálið eru umdeild en að mati sumra fela þau í sér afskipti af störfum dómstóla. Flokksbróðir Ögmundar hefur krafist þess að hann segi af sér embætti. Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands, telur óheppilegt yfirleitt að ráðherra dómsmála tjái sig um mál sem séu rekin fyrir dómstólum.

Innanríkisráðherra ætlar að greiða atkvæði með þingslyktun sjálfstæðismanna um að afturkalla ákæru á hendur Geir Haarde.

Ráðherrann sagði í síðsdegisútvarpi Rásar 2 í gær að eftir því sem hann hefði skoðað málið betur hefðu orðið sinnaskipti hjá honum. Svo sagði hann. „Hin saknæmu ásetningsbrot eru til skoðunar hjá sérstökum saksóknara. (...) Þetta (mál gegn Geir innsk.blm) er af allt öðrum toga. (...) Erum við að fara að dæma menn í fangelsi út á þetta. Nei, það gerum við gagnvart þeim sem frömdu ásetningsbrot til að hafa af því hagnað sjálfir."

Hirðuleysi er nóg, ekki gerð krafa um ásetning

Það er grundvallarmunur á þessu, eins og ráðherrann bendir á, því í lögum um ráðherraábyrgð er ekki gerð krafa um ásetning, enda kemur skýrt fram í lögunum að gáleysi dugi til sakfellingar. Í lögunum er talað um „stórkostlegt hirðuleysi" en fyrrverandi forsætisráðherra er einmitt ákærður fyrir það.

Ögmundur sagði efnislega í viðtalinu að ekki ætti að dæma Geir til refsingar. Þráinn Bertelsson, flokksbróðir Ögmundar, kallaði í dag eftir afsögn hans vegna ummælanna og afstöðu hans yfirleitt í málinu.

Í þessu efnum hefur verið rifjað upp að Landsdómur hefur þegar fjallað um frávísunarkröfu verjanda Geirs og hafnað að vísa frá fjórum ákæruatriðum. Með öðrum orðum, Landsdómur hefur úrskurðað að efnisdómur skuli ganga um fjögur ákæruatriði.

Ummælin óheppileg

Velta má fyrir sér hvort ummæli Ögmundar, sem er ráðherra dómsmála, feli í sér afskipti af störfum dómstóla. Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélagsins, telur ummælin óheppileg. Hann segir að ekki sé heppilegt að ráðherra dómsmála tjái sig almennt um sakamál sem séu rekin í dómskerfinu en telur þetta má sérstaks eðlis. Því gildi aðrar reglur um það og sakamál almennt. Brynjar tekur fram að hann sé sjálfur mótfallinn ákæru á hendur Geir.

Ögmundur Jónasson segist telja ummæli sín fullkomlega eðlileg, en hann segir að málið sé ólíkt venjulegum sakamálum þar sem Alþingi fari með ákæruvaldið. Sjá má viðtal við Brynjar og Ögmund í myndskeiði.

Ákæruatriðin sem Landsdómur telur tæk

Eftir úrskurð Landsdóms standa eftir fjögur ákæruatriði í málinu á hendur Geir H. Haarde: (i) að ákærði hafi vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri, (ii) að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins, (iii) að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og stuðlað að því með virkri aðkomu ríkisins og (iv) að hafa látið farast fyrir það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrárinnar að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.


Tengdar fréttir

Ögmundur vill losa Geir úr snörunni

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ætlar að styðja tillögu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins um að draga til baka ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra fyrir Landsdómi.

Mörður ósammála Ögmundi

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segist vera ósammála því að afturkalla ákæruna á hendur Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann segist vera hissa á því að ráðherra dómsmála vilji stöðva réttarhald í miðjum klíðum. Ögmundur lýsti því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að hann hygðist styðja þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að leggja málið gegn Geir Haarde niður.

VG í Reykjavík skorar á þingmenn að vera samkvæmir sjálfum sér

Stjórn Vinstihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík hvetur þingmenn flokksins að vera samkvæmir sjálfum sér og greiða atkvæði gegn þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokksins þess efnis að máli Geirs H. Haarde verði vísað frá landsdómi. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, lýsti því yfir í grein í dag að hann ætli sér að greiða atkvæði með tillögunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×