Viðskipti innlent

Gríðarleg tækifæri framundan

Þórður Snær Júlíusson skrifar
"Norðmenn eru að fjárfesta á þessu ári 186 milljarða norskra króna bara í olíu og gasi. Það samsvarar því að við værum að fjárfesta 250 til 260 milljarða íslenskra króna bara í einni atvinnugrein hérna á Íslandi, þegar búið er að leiðrétta fyrir krónunni og mannfjöldanum,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson.Fréttablaðið/gva
"Norðmenn eru að fjárfesta á þessu ári 186 milljarða norskra króna bara í olíu og gasi. Það samsvarar því að við værum að fjárfesta 250 til 260 milljarða íslenskra króna bara í einni atvinnugrein hérna á Íslandi, þegar búið er að leiðrétta fyrir krónunni og mannfjöldanum,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson.Fréttablaðið/gva
Verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækið Mannvit átti mjög gott rekstrarár á síðasta ári. Velta fyrirtækisins var 8,7 milljarðar króna og hagnaður þess fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta 1,1 milljarður króna. Hagnaður þess var 751 milljón króna.

Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits, segir árið 2011 hafa verið það besta, rekstrarlega séð, frá upphafi. „Þótt við horfum alla leið aftur til upphafs þeirra þriggja fyrirtækja sem síðar urðu Mannvit (VGK, Hönnun og Rafhönnun), en það er á árinu 1963, þá er þetta samt besta árið. Því fylgir auðvitað heppni, en við fórum í gegnum mjög mikla naflaskoðun haustið 2008.

Svo settum við niður fæturna og horfðum fram á veginn strax í upphafi árs 2009. Við breyttum áherslum okkar. Á árunum 2006 til 2008 vorum við mjög umsvifamikil í þjónustu við byggingageirann, sveitarfélög og ríkið. Þessi þjónusta var um 60 prósent af okkar umfangi. Hún var eiginlega orðin óeðlilega stór hluti. Þetta hefur breyst hjá okkur núna. Þessi þjónusta, sem við flokkum sem mannvirkjagerð, er nú undir 20 prósentum af því sem við gerum. Um 60 prósent er nú þjónusta við iðnað og um 20 prósent eru orkutengd verkefni."

Vilja sérhæfa sig í orku og iðnaðiAð sögn Eyjólfs Árna var tekin ákvörðun um það innan Mannvits fyrir margt löngu að ætla að sérhæfa sig í að þjónusta orku- og iðnaðargeirann. „Á árunum 2007 og 2008 þá töldum við okkur sjá það í spilunum að verkefnin sem við vorum að vinna að gætu ekki haldist í svona miklu magni áfram og fórum að undirbúa okkur fyrir að þetta myndi breytast. Það hefur skilað sér.

Grunnreksturinn hjá okkur var mjög góður en við áætluðum strax haustið 2008 að það gæti orðið um 35 prósenta samdráttur hjá okkur. Við fórum í ráðstafanir til að mæta því. Samdrátturinn varð minni, 25 til 27 prósent, en vegna þess að við mættum honum strax skiluðum við hagnaði upp frá því."

Hann bendir þó á að Mannvit er þjónustufyrirtæki sem sveiflast mjög með fjárfestingum. Þær þurfa að vera fyrir hendi til að svona fyrirtæki þrífist, en fjárfesting er mjög lítil á Íslandi í dag. „Til samanburðar má benda á að Norðmenn eru að fjárfesta á þessu ári 186 milljarða norskra króna bara í olíu og gasi. Það samsvarar því að við værum að fjárfesta 250 til 260 milljarða íslenskra króna bara í einni atvinnugrein hér á Íslandi, þegar búið er að leiðrétta fyrir krónunni og mannfjöldanum. Það er svona tvöfalt meira en heildarfjárfesting í ár nemur á landinu öllu."

Í alþjóðlegri samkeppniÁ meðal þess sem Mannvit hefur gert til að auka möguleika sína til að bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu var að stofna HRV Engineering árið 1996, en það er dótturfélag sem Mannvit á með Verkís og sérhæfir sig í þjónustu við áliðnaðinn. Eyjólfur Árni segir þetta hafa verið mikið gæfuspor. „Fyrir um 15 árum þegar verið var að byggja upp álverið á Grundartanga þá snerum við okkur að því að þjónusta þann geira mun meira en við höfðum verið að gera. Þá voru stofurnar þrjár, sem síðar runnu saman í Mannvit, með um tíu til tuttugu manns að þjónusta áliðnaðinn í heild. Í dag eru um 230 manns að vinna við þetta. Það góða við að það séu svona mörg álver á Íslandi er að þá er hægt að byggja upp víðtæka þjónustu við þau. Hana er síðan hægt að flytja út. HRV er því í alþjóðlegri samkeppni vegna þeirrar þekkingar sem við höfum byggt þar upp."

Stofnuðu félag í MoldeÁ þessum grunni ákvað Mannvit, í gegnum HRV, að einbeita sér í auknum mæli að olíutengdum verkefnum líka. Búið er að stofna félag í Molde í Noregi með norskum samstarfsaðilum og eru sérfræðingar frá Mannviti fluttir þangað frá Íslandi til að vinna að uppbyggingu þess. Eyjólfur Árni segir stefnuna þó vera að byrja smátt, sem sé þó afstæð afstaða. „Það sem Norðmenn segja að sé smátt í olíuiðnaðinum er risastórt fyrir okkur. Bara í Molde vantar til að mynda um tvö þúsund manns til starfa í honum á þessu ári. Heildarfjöldi þeirra sem starfa í okkar geira á Íslandi á frjálsum markaði er um 1.400 manns. Stærðirnar eru því miklar.

Ásamt því að komast inn í olíu- og gasiðnaðinn er ætlun okkar að þjónusta áliðnað í Noregi í gegnum annað félag sem er stofnað sérstaklega. Mannvit er líka að vinna beint þarna í orkugeiranum við smærri virkjanir. Við eigum góða möguleika í orkugeiranum þar líka, enda er olíu- og gasgeirinn að soga til sín allt fólk þarna."

Mikil tækifæri á GrænlandiÁ ráðstefnu sem Arion banki hélt nýverið um olíu á Drekasvæðinu kom fram að á árinu 2025 megi búast við olíuvinnslu á þremur svæðum norðan Íslands: við austurströnd Grænlands, á Drekasvæðinu og við Jan Mayen. Viðbúið er að íslensk fyrirtæki muni veita þjónustu fyrir öll svæðin.

Eyjólfur Árni bendir á að Íslendingar þurfi líka að undirbúa sig fyrir að þjónusta námuiðnað í Grænlandi. Þar er búið að úthluta um 140 námu- og rannsóknarvinnsluleyfum auk þess sem álframleiðandinn Alcoa hefur uppi áform um að reisa þar álver. Þetta kemur allt til viðbótar við væntanlega olíuvinnslu við austurströnd landsins. Eyjólfur Árni segi innviði í Grænlandi vera of veika til að heimamenn geti þjónustað þessar miklu framkvæmdir. Nærtækast sé fyrir þá að líta til Íslands í leit að þeirri þjónustu. „Grænlendingarnir vilja fá Íslendinga í þessa þjónustu. Þeir segja það. Höfuðborgarsvæðið yrði alltaf kjarninn í því enda höfum við alla þá þjónustu sem til þarf þar. En þjónusta fyrir Grænland myndi líka skapa tækifæri nær þéttbýliskjörnum á vestur og norðvesturhluta landsins.

Ef það reynist olía í vinnanlegu magni, hvort sem er á Austur-Grænlandi eða á Drekasvæðinu/Jan Mayen, þá eru bara tvö lönd sem koma til greina til að þjónusta þá vinnslu, Ísland eða Norður-Noregur. Þeir staðir sem koma raunverulega til greina í þessa þjónustu, að okkar mati, eru Akureyri, Húsavík og Egilsstaðir/Reyðarfjörður. Ástæðan er sú að þar er nægjanlegur fjöldi af fólki og nauðsynlegir innviðir til staðar. Þar eru til dæmis sjúkrahús og aðrar grunnstoðir. En allir Íslendingar munu njóta góðs af þegar upp er staðið."

Þurfum á hjálp að haldaSpurður hvort Ísland, þessi fámenna þjóð, muni ráða við svona mörg stór verkefni á jafn skömmum tíma segir Eyjólfur Árni það miklu frekar vera spurninguna en hvort við munum fá þau. „Ég held að við þurfum að taka okkur saman sem heild og undirbúa okkur til að ráða við þetta. En við þurfum aðstoð og hana eigum við að sækja til Norðmanna. Þeir gerðu allt mjög vel þegar þeir fundu sína olíu. Þá settu þeir í gang langtímaáætlun bæði hvað varðar eignarhald og í að byggja upp nauðsynlega þekkingu í olíu- og gasiðnaði í gegnum sitt skólakerfi. Í dag eru Norðmenn á meðal þeirra fremstu í heiminum í því."

Að mati Eyjólfs Árna þurfa stjórnvöld að móta heildræna framtíðarsýn um þessi mál. Hann telur það líka mjög hollt að þau leiti til Norðmanna eftir viðeigandi hjálp til að takast á við þau. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að gera það á stjórnvaldsstigi. Þeir eiga Drekasvæðið á móti okkur og báðar þjóðir munu njóta góðs af."

Hugmyndin að Geysi Green var rétt, en framkvæmdin mátti vera betri

Félag í eigu Mannvits, VGK Invest, var á meðal þeirra sem stóðu að stofnun hins umdeilda Geysis Green Energy (GGE) í upphafi árs 2007. Félagið sérhæfði sig í starfsemi tengdri virkjun á jarðhitaorku. Í október 2007 var reynt að sameina GGE og Reykjavik Energy Invest (REI). Grunnhugmyndin að baki hins sameinaða félags var að nýta þá sérþekkingu sem byggst hafði upp innan Orkuveitu Reykjavíkur á sviði jarðvarmanýtingar erlendis. Sameiningin, og útrásaráformin, urðu hins vegar að engu líkt og frægt er orðið.

Eyjólfur Árni segir Mannvit ekki sjá eftir því að hafa lagt af stað í þetta ævintýri. „Auðvitað hefðum við viljað að þetta gengi upp. Og við sjáum eftir því að Geysir Green gerði það ekki. En þetta var hárrétt skref sem var tekið og hugsunin var rétt. Að fara inn í orkufyrirtæki þar sem bakgrunnsþekking og rekstrarreynsla var til staðar og sigla síðan með það út fyrir landssteinana til að taka þátt í uppbyggingu orkuiðnaðarins utan Íslands. Við áttum að fara út í þetta.

Hefðum við borið gæfu til þess að REI eða Geysir Green hefðu klárast á einhvern skynsamlegan máta, sem þessi verkefni gerðu því miður ekki, þá hefði orðið til mjög öflugt fyrirtæki. Það var ekki verið að selja neinar auðlindir úr landi, heldur átti að nýta þekkingu og reynslu. Hugmyndin var góð, en framkvæmdin hefði mátt vera önnur."

Hann er líka mjög harður á því hvernig eigi að fara með þær orkuauðlindir, og í raun allar aðrar náttúruauðlindir, sem Íslendingar eiga nú þegar. Þær á að nýta sem fyrst. „Við hjá Mannviti erum alveg grjóthörð á því að við viljum sjá auðlindir okkar nýttar. Jafnvel þótt það fáist ekki allra hæsta verð fyrir þær núna, þá eigum við að nýta þær og nota arðinn til að byggja upp öflugt og vel menntað samfélag. Þá verður í framhaldinu hægt að fara að tala um nýsköpun og þróun á Íslandi. Það er heldur ekkert víst að það verði kaupandi að þessum verðmætum sem við eigum í dag, hvort sem þau eru í orkunni eða öðru, eftir 20, 30 eða 50 ár. Ef þau eru til staðar í dag, þá eigum við að selja í dag. Við eigum ekki að selja eignarhaldið á auðlindunum, heldur afurðina. Það er okkar skoðun."

Að mati Eyjólfs Árna er því nauðsynlegt að ljúka rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda. Hann er þó óánægður með hvaða stefnu sú vinna hefur tekið með því að færri kostir hafa ratað í nýtingarflokk. „Við viljum sjá þessari vinnu lokið á þann faglega hátt sem lagt var af stað með og ná sátt. Það gengur ekki að leikreglunum sé breytt í hálfleik og að pólitíkin taki við. Það er mjög erfitt að mótmæla því að það gerðist.

En mér finnst umræða um þessi mál oft og tíðum í furðulegum skotgrafarhernaði. Það læðist að manni sá grunur að einhverjir sem koma að málinu hafi hreinlega ekki viljað sátt. Að það sé hópur sem telur það hreinlega gott að hafa þessi mál áfram í átakafarvegi til að geta rifist um þau."

Menntum of lítið af tæknifólki

Eyjólfur Árni hefur miklar áhyggjur af því að íslenska menntakerfið mennti allt of lítið af tæknifólki í samanburði við þau lönd sem við berum okkur saman við. Það geti staðið þróun íslenska hagkerfisins fyrir þrifum. „Það er heilmikil samkeppni um fólk á okkar markaði. Samtök atvinnulífsins unnu í vetur skýrslu þar sem kom í ljós að færra fólk á aldrinum 25 til 34 ára hérlendis, borið saman við OECD-löndin, er með háskólapróf. Á Íslandi eru það 37 prósent á þessu aldursbili. Á sama tíma eru 47 prósent Norðmanna á sama aldursbili með háskólapróf. Eina þjóðin af þeim sem við berum okkur saman við sem er fyrir neðan okkur eru Þjóðverjar. Það kunna að vera skýringar á því, til dæmis í tengslum við sameiningu austurs og vesturs. Það er því ótrúlega lágt hlutfall með háskólamenntun á þessu aldursbili á Íslandi. Við þurfum því að efla hana.

Svo þegar maður skoðar hlutfall þeirra sem fara í tækni- og raungreinar þá erum við líka með því lægsta sem að sést hjá þessum þjóðum. Við höfum með auglýsingum og hvatningu verið að ýta á fólk að fara í svona nám. Það vantar fólk á þennan markað."

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
EIK
1,71
6
16.791
VIS
1,53
9
300.468
REITIR
1,21
5
111.540
SJOVA
1,09
8
81.238
FESTI
0,93
6
457.400

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
SKEL
-2,82
8
9.870
KVIKA
-1,48
20
452.744
ICEAIR
-1,47
14
9.616
SYN
-0,78
5
70.590
ICESEA
-0,66
4
5.955
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.