Skoðun

Verður þjóðkirkja að vera íhaldssöm?

Hjalti Hugason og Sigrún Óskarsdóttir skrifar
Við búum í fjölmenningarsamfélagi. Í samfélagi þar sem ólíkir menningarheimar mætast ríður á að búa þannig um hnúta að sátt og samlyndi ríki. Okkur ber því skylda til að ræða hvernig fjölhyggjunni skuli mætt og kosta kapps um að læra af reynslu annarra í því efni.

Fyrir skömmu birtist hér á landi grein sem lýsir afstöðu Davids Cameron forsætisráðherra Breta til fjölhyggjunnar. Hann ræðir sérstaklega hlutverk Biblíunnar og kristinnar trúar í því samhengi (B+, Fréttabréf Biblíufélagsins, apríl 2012, bls. 9). Í orðum Camerons hlýtur að felast ákveðinn skilningur á hlutverki kirkjunnar í samfélaginu. Enska biskupakirkjan á um sumt svipaða sögu og nýtur að vissu leyti hliðstæðrar stöðu og þjóðkirkjan hér. Því er vert að gefa hugleiðingum hans gaum.

Veruleiki eða draumsýn?Cameron lýsir því yfir að Bretland sé kristið land og Bretar eigi ekki að vera hræddir við að viðurkenna það. Biblían er að hans mati einkar mikilvæg fyrir „bresk gildi" og loks kallar hann eftir að „hefðbundin kristin gildi" verði endurvakin til þess að vega á móti „siðferðislegu hruni" Bretlands.

Hér vakna ýmsar spurningar vegna þeirrar opnu og friðsamlegu sambúðar milli trúarbragða og einnig milli trúaðra og ekki-trúaðra sem verður að ríkja í lýðræðislegu fjölhyggjusamfélagi. Er forsætisráðherrann að lýsa Bretlandi fyrri tíma, veruleikanum eins og hann er í dag eða draumsýn sinni um Bretland?

Cameron lýsir þó ekki yfir einfaldri afstöðu. Hann veit og virðir að margir „landsmenn" eru ekki kristnir og telur ekki „rangt" að vera annarrar trúar – eða trúlaus. Hann kveðst meira að segja stoltur yfir að mörg „trúarsamfélög eigi heima í Bretlandi" og að það efli landið.

UmburðarlyndishefðForsætisráðherrann byggir hugmyndir sínar á eldgamalli enskri hefð. Allt frá 17. öld hefur verið skilið á milli opinberrar trúar og einkatrúar í Bretlandi. Biskupakirkjan hefur verið hin opinbera kirkja landsins og eitt helsta sameiningartákn Heimsveldisins við hlið krúnunnar. Frá 1688 hefur aftur á móti ríkt umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum og síðar trúfrelsi – lengi þó með skertum borgaralegum réttindum. Af þeim sökum lítur Cameron raunar svo á að kristnin sé „bresk" en önnur trúarbrögð „eigi bara heima" í landinu líkt og gestir eða útlendingar.

Kallað eftir veraldarvæddri trúÍ ákalli Camerons um endurvakningu kristinna gilda felst áskorun til kirkjunnar og þá einkum Ensku biskupakirkjunnar. Cameron kallar eftir að kirkjan standi vörð um hefðbundin, kristin gildi. Hann kallar kirkjuna jafnframt til ákveðins hlutverks sem felst í því að efla hin bresku gildi.

Það sem Cameron raunverulega kallar eftir er að kirkjan finni sig í því hlutverki að vera stofnun eða rammi utan um það sem kalla má borgaralega eða nánast veraldlega trú (e. civil religion). Aðall borgaralegrar trúar er að standa vörð um hefðbundin gildi samfélags eins og ráðandi öfl kjósa að skilja þau og verða hluti af opinberum táknheimi samfélagsins og efla þannig einingu þess og samstöðu.

Kirkja sem gengur inn í slíkt hlutverk af heilum huga verður alltaf framlengdur armur ríkisvaldsins hvernig sem tengslum ríkis og kirkju er háttað að öðru leyti. Hún verður alltaf hluti af hástéttinni, hámenningunni, kerfinu eða bákninu. Það telst alltaf til borgaralegra dyggða að tilheyra slíkri kirkju hvað svo sem líður persónulegri afstöðu og virkni. Ákall Camerons til kirkjunnar kemur okkur við vegna þess að íslenskir stjórnmálamenn skilgreina oft hlutverk kirkjunnar í samfélaginu á sama hátt og hann.

Spámaður, trúður eða fífl?Í samfélagi samtímans er brýnt að kirkjan spyrji hvort hún geti áfram sætt sig við það að vera einungis rammi um borgaralega trú.

Oft er lögð áhersla á að kristinni kirkju beri að vera gagnrýnið, „spámannlegt" afl í anda þeirra fornu samfélagsrýna sem við mætum í mörgum ritum Gamla testamentisins. Þá er jafnframt minnt á hlutverk trúðsins eða hirðfíflsins sem kom við kaun sem aðrir þóttust ekki sjá. Öll þekkjum við líka frásögnina um barnið í ævintýri Andersens sem eitt benti á nekt keisarans og þannig mætti lengi telja.

Gömul og virðuleg kirkja á borð við íslensku þjóðkirkjuna verður að vísu seint trúverðugt hirðfífl. Kirkja sem bregst gagnrýnislaust við ákalli um að vera vettvangur borgaralegrar trúar afsalar sér aftur á móti hlutverki spámannsins algerlega. Hún er til friðs, er prúð, stillt og umfram allt íhaldssöm.

Að lokumÁbyrgðarlaust væri að svara þeirri ágengu spurningu sem varpað var fram í upphafi með einföldu já-i eða nei-i. Þjóðkirkjan er hluti af langtímaminni samfélags og ber því að gæta ákveðinnar festu. Hún er þó líka hluti af hinni alþjóðlegu kirkju Krists. Í því felst ákall til gagnrýnins endurmats sem beinist ekki síst að kirkjunni sjálfri. Í því felst brýning um að gæta ekki aðeins hefðanna heldur endurskapa þær við síbreytilegar aðstæður, m.a. í ljósi fjölhyggjunnar. Í því felst óhjákvæmilega áskorun um róttækni.




Skoðun

Sjá meira


×