Viðskipti innlent

Viðskipti fyrir 2,9 milljarða króna

Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Velta á fasteignamarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu jókst verulega í síðustu viku. Alls var þinglýst 81 kaupsamningi, sem er rétt tæplega 20 samningum meira en nemur meðaltali síðustu 12 vikna.

Heildarveltan reyndist tæpir 2,9 milljarðar króna, sem er milljarði meira en nemur meðaltalinu. Meðalverð á fasteign var 35,4 milljónir sem var sex milljónum hærra en meðaltal síðustu 12 vikna. Þetta kemur fram á vefsíðu Þjóðskrár Íslands.

Á vefsíðunni segir að fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu 4. febrúar til og með 10. febrúar 2011 var 81. Þar af voru 50 samningar um eignir í fjölbýli, 25 samningar um sérbýli og sex samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði.

Á sama tíma var einum kaupsamningi þinglýst á Suðurnesjum og var hann um eign í fjölbýli. Upphæð samnings var 11 milljónir króna. Á Akureyri var sex samningum þinglýst. Þar af voru fimm samningar um eignir í fjölbýli og einn samningur um sérbýli. Heildarveltan var 104 milljónir króna og meðalupphæð á samning 17,3 milljónir króna.

Á Árborgarsvæðinu var þremur kaupsamningum þinglýst. Þar af var einn samningur um sérbýli og tveir samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 122 milljónir króna og meðalupphæð á samning 40,7 milljónir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×