Handbolti

Enn óvissa með þáttöku Ingimundar

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Ingimundur lenti illa á hnénu í upphafi seinni hálfleiks í leiknum gegn Spáni á mánudaginn eins og sjá má á þessari mynd. Hann missti af leiknum gegn Frökkum í fyrrakvöld og óvíst er hvort hann verður með gegn Króatíu á morgun.
Ingimundur lenti illa á hnénu í upphafi seinni hálfleiks í leiknum gegn Spáni á mánudaginn eins og sjá má á þessari mynd. Hann missti af leiknum gegn Frökkum í fyrrakvöld og óvíst er hvort hann verður með gegn Króatíu á morgun. Fréttablaðið/Valli

Strákarnir okkar hafa mátt ferðast mikið á HM í Svíþjóð og þeir fóru í sína síðustu löngu rútuferð í gær. Þá var setið í rútu í fjóra klukkutíma frá Jönköping til Malmö.

Leikur Íslands og Króatíu fer fram í Malmö en ekki Kristianstad en það hefði kallað á enn meiri ferðalög. Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, sagði alla í hópnum fegna yfir því þar sem menn væru búnir að fá nóg af ferðalögum í bili.

Eftir langt og strangt mót eru leikmenn orðnir ansi lemstraðir og sumir verr farnir en aðrir. Allir leikmenn íslenska liðsins fyrir utan Ingimund Ingimundarson ættu þó að vera klárir í slaginn á morgun.

„Svona mót tekur sinn toll af mönnum og það er hnjask hér og þar. Ég hef þó fulla trú á því að allir spili en það skýrist ekki strax hvernig fer með Ingimund. Hann er enn slæmur og fékk mikinn verk við það eitt að reyna að stöðva lyftu sem var að lokast. Hann verður áfram í meðhöndlun og við sjáum svo til,“ sagði Einar við Fréttablaðið í gær.

Ólafur Stefánsson hefur einnig verið slæmur frá fyrsta leik. Alexander Petersson meiddist næst og loks Snorri Steinn Guðjónsson. Þeir ættu þó að geta spilað þó svo að það muni reynast þeim erfitt.

Oddur Gretarsson var kallaður í íslenska landsliðið fyrir leikinn gegn Frakklandi í fyrrakvöld og er það fyrsta breytingin sem Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari gerir á leikmannahópnum eftir að mótið hófst. Reglurnar leyfa honum þó að gera eina breytingu til viðbótar og því gæti hann sett Ingimund á skýrslu á ný fyrir morgundaginn.

Leikurinn við Króatíu mun skipta talsvert miklu máli því liðið sem vinnur leikinn fær „þægilegri“ riðil í undankeppni Ólympíuleikanna 2012. Einar segir því menn vera staðráðna í að selja sig dýrt gegn Króatíu.

„Þessi hópur stefnir á að komast til London og menn eru vel meðvitaðir um mikilvægi leiksins. Ég efast því ekkert um að strákarnir mæti einbeittir og grimmir til leiks,“ sagði Einar Þorvarðarson.

Viðureign Íslands og Króatíu hefst klukkan 19.30 á föstudagskvöldið en fyrr um daginn fer fram í Malmö undanúrslitaleikur Svíþjóðar og Frakklands.

Úrslitaleikurinn, sem og leikurinn um bronsið, fer svo fram í Malmö á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×