Viðskipti innlent

Breskir háskólanemar vista heimaverkefnin í Hafnarfirði

Jón Viggó Áhugi hefur aukist á því ytra að vista gögn í íslenskum gagnaverum, segir framkvæmdastjóri Thor Data Center.Fréttablaðið/Vilhelm
Jón Viggó Áhugi hefur aukist á því ytra að vista gögn í íslenskum gagnaverum, segir framkvæmdastjóri Thor Data Center.Fréttablaðið/Vilhelm
Forsvarsmenn Thor Data Center, gagnavers í Hafnarfirði, hafa undirritað samkomulag við breska upplýsingatæknifyrirtækið HRC Cube um hýsingu á heimaverkefnum þúsundum breskra háskólanema. HRC Cube, sem IBM í Bretlandi stendur á bak við, sérhæfir sig í tækniþróun fyrir menntakerfið ytra og heldur utan um netumhverfi fjölda breskra háskóla. Ekki liggur fyrir nákvæmt verðmæti samningsins. Hann er talinn geta numið nokkuð hundruð milljónum króna.

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Thor Data Center, hefur verið í Bretlandi upp á síðkastið og kynnt græna hýsingu gagnavera hér. Hann segir áhuga á vistun gagna hér hafa aukist mikið enda farið að þrengja um gagnaverspláss ytra. Sérstaklega eigi þetta við um opinbera geirann.

Hann segir áhugann ekki síst hafa kviknað eftir að Alþingi samþykkti undanþágur frá skattareglum fyrir gagnaver hér rétt fyrir áramótin. „Þær höfðu mikið að segja. Við finnum að mörg mál sem voru stopp hafa lifnað við á ný," segir hann.

Í breytingu á lögum um virðisaukaskatt fyrir gagnaver var reglum breytt á þann veg að þeir sem hýsa gögn í gagnaverum þurfa ekki að greiða virðisaukaskatt af búnaði sem þeir flytja hingað auk þess sem viðskiptavinir gagnavera ytra eru undanþegnir virðisaukaskatti. Þetta er í samræmi við lög og reglur innan Evrópusambandsins. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×