Viðskipti innlent

Actavis áfrýjar í Bandaríkjunum

Lyfjafyrirtækið Actavis hefur ákveðið að áfrýja máli sem fyrirtækið tapaði í Bandaríkjunum í gær. Dómari dæmdi þá tvær starfsstöðvar fyrirtæksins í hæstu sekt sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Starfsstöðvarnar voru dæmdar til að greiða um það bil 20 milljarða króna í sekt fyrir að hækka verð á samheitalyfjum til þess að fá meira úr opinberum tryggingum. Til samanburðar eru það tveir þriðju af niðurskurði í fjárlögum ársins.

Starfsstöðvarnar sem um ræðir eru Actavis Mid-atlantic LLC og Actavis Elizabeth LLC en þeim var gefið að sök að hafa vísvitandi innheimt of hátt verð fyrir samheitalyf sem endurgreidd eru af opinberum tryggingum í gegnum stofnun sem kallast Medicaid.

Upp komst um misferlið þegar lyfsali í Flórída-fylki kærði fyrirtækið en réttarkerfið í bandaríkjunum gerir ráð fyrir því að sá sem kærir slíkt misferli fær hlutdeild í þeirri sekt sem fyrirtækið er dæmt til að greiða. Þessi tiltekni lyfsali hefur verið duglegur við að kæra mál af þessu tagi og að eigin sögn fengið rúmar 400 milljónir bandaríkjadala í sinn hlut í gegnum tíðina.

Fyrirtækið hefur tekið ákvörðun um að áfrýja málinu og telur sig vera í góðri stöðu til þess.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×