Viðskipti innlent

Síminn greiði frönsku félagi 1,2 milljarða í skaðabætur

Símanum hf. hefur verið gert að greiða franska fjarskiptafyrirtækinu Seamobile Europe 7,7 milljónir evra eða um 1,2 milljarða kr. í skaðabætur. Héraðsdómur hefur áritað sem aðfararhæfan úrskurð gerðardóms í París í þessu máli en Síminn ætlar að grípa til þeirra varna sem félaginu eru tiltæk.

Í tilkynningu um málið til kauphallarinnar segir: „Símanum hf.,dótturfélagi Skipta hf., hafa borist upplýsingar um að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi áritað sem aðfararhæfan úrskurð í ágreiningsmáli Símans og fjarskiptafyrirtækisins Seamobile Europe sem rekinn var fyrir gerðardómi í París.

Gerðardómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að Símanum beri að greiða skaðabætur, einkum vegna meints missis framtíðarhagnaðar á grundvelli samnings sem Landssími Íslands hf. gerði við fyrirtækið Geolink á árinu 2003 um fjarskiptaþjónustu á alþjóðlegum hafsvæðum. Kröfufjárhæð nemur um 7,7 milljónum evra.

Síminn telur að úrskurður gerðardómsins sé ekki í samræmi við íslensk lög, en það var samkomulag milli aðila að íslensk lög lægju til grundvallar úrskurði gerðardóms. Síminn mun í framhaldinu grípa til þeirra varna sem félaginu eru tiltæk, lögum samkvæmt."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×