Viðskipti innlent

Þrettán flugfélög til Íslands

Leifsstöð. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi fjölda erlendra flugfélaga sem sækjast eftir að fljúga til og frá Íslandi næsta sumar.
Fréttablaðið/Valli
Leifsstöð. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar varðandi fjölda erlendra flugfélaga sem sækjast eftir að fljúga til og frá Íslandi næsta sumar. Fréttablaðið/Valli

Vaxandi áhugi er nú meðal erlendra flugfélaga á að fljúga til og frá Íslandi. Að minnsta kosti ellefu erlend félög hafa tilkynnt um flug hingað til lands næsta sumar og fleiri gætu bæst við.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia sem rekur flugvelli á Íslandi, segir það skýrast í lok janúar hversu mörg erlend flugfélög sækist eftir og fái aðstöðu á Keflavíkurflugvelli í sumar. Hjördís bendir á að umsvif þessara félaga verði mismikil, sum þeirra ætli eingöngu að fljúga hingað fáeinar ferðir en önnur hyggist halda uppi reglulegu áætlunarflugi. „Við finnum fyrir meiri áhuga en verið hefur. Þróunin í fluginu hefur snúist og er nú upp á við eftir dýfu í kjölfar efnahagshrunsins,“ segir Hjördís.

Yfirlit yfir framboð á ferðum til og frá Íslandi má finna á leitarvefnum Dohop. Í tilkynningu frá Dohop segir að óvenjumikið framboð af flugi verði til og frá Íslandi næsta sumar. „Erlend flugfélög bjóða beint flug frá Keflavík til Vínar, Berlínar, Hamborgar, Nuuk, Parísar, New York, Ósló og Gautaborgar,“ segir í upptalningunni frá Dohop. Auk þess bjóða íslensku flugfélögin flug á fjölmarga áfangastaði.

Aðspurð segir Hjördís Keflavíkurflugvöll geta annað jafn mikilli umferð og stórir vellir í Evrópu. Flugstöðin anni 3,5 milljónum farþega. Það er langt umfram þær tæplega 2 milljónir farþega sem fóru um Leifsstöð þegar best lét í góðærinu. Meðal þeirra flugfélaga sem fljúga hingað í sumar er bandaríska félagið Delta. Íslensk yfirvöld eru nú með til skoðunar ósk Delta um að hafa vopnaða verði um borð í þeim farþegavélum sem hingað koma. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×