Viðskipti innlent

Nýr framkvæmdastjóri fjármála hjá OR

Ingi Jóhannes Erlingsson tók í dag tímabundið við sem framkvæmdastjóri fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Ingi Jóhannes var forstöðumaður fjár- og áhættustýringar hjá OR og tekur hann við af Önnu Skúladóttur. Gengið frá samkomulagi um starfslok hennar í dag.

Í tilkynningu segir að Ingi Jóhannes sé með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum (MIBS) frá Háskólanum í Suður Karólínu í Bandaríkjunum og viðskiptafræðingur, cand. oecon. af fjármála og reikningshaldssviði, frá Háskóla Íslands.

Helgi Þór Ingason forstjóri segir að þau verkefni, sem eru mest aðkallandi hjá fyrirtækinu nú um mundir, séu tengd fjármögnun þess og hann vilji stilla upp breyttu liði. Á vegum hans er nú starfandi samráðshópur með eigendum OR um fjármögnun fyrirtækisins og verkefna þess og hefur Ingi Jóhannes starfað þétt með þeim hópi. Helgi Þór kynnti þessa breytingu á stjórnendateyminu fyrir stjórn OR á fundi í dag.

Ingi Jóhannes hefur undafarin átta ár starfað í fjármálum OR og síðustu fimm árin sem yfirmaður fjár- og áhættustýringar. Áður starfaði Ingi Jóhannes hjá Íslandsbanka og Flugleiðum við fjárstýringu og hjá Handsali við verðbréfamiðlun og ráðgjöf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×