Handbolti

Arnór: Við eigum meira inni

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar

Arnór Atlason er afar ánægður með gengi Íslands á HM og segir liðið vera í góðu færi til þess að gera eitthvað gott úr mótinu.

"Okkar riðill er eiginlega orðinn að milliriðli og leikurinn gegn Noregi er afar mikilvægur. Þar er verið að spila um tvö mikilvæg stig. Ef við förum með fjögur stig í milliriðilinn lítur þetta ótrúlega vel út," sagði Arnór.

"Auðvitað var draumastaðan að vinna alla leikina í riðlinum en við eigum samt enn eftir að spila heilan góðan leik enn á mótinu. Það hafa verið sveiflur og gott að vita að við eigum inni þó svo við séum með fullt hús stiga.

"Það er full ástæða til bjartsýni en leikirnir gegn Noregi eru rosaleikir sem enda oftar en ekki með jafntefli. Við verðum því að búa okkur undir svakaleik."

Arnór segir að stemningin í hópnum sé góð og það hjálpi til að skapa nýtt ævintýri.

"Óneitanlega verður stemningin betri eftir því sem betur gengur. Þá er auðvelt að halda uppi góðri stemningu. Við erum í góðu færi að gera eitthvað úr þessu. Norðmenn eru að spila upp á tvö stig og það er mikið undir í þessum leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×