Viðskipti innlent

Fiskvinnsla hefst vonandi á Flateyri eftir helgi

Jónas Margeir skrifar

Lotna ehf. nýr eigandi fiskvinnslunnar á Flateyri, vonast til að hefja fiskvinnslu strax eftir næstu helgi. Þá mun annað skip verða gert út frá Flateyri en skipið er væntanlegt þangað á laugardag.

Lotna ehf. keypti nýlegar allar eignir þrotabús Eyrarodda, sem varð gjaldþrota í síðasta mánuði. Fjörtíu og tveir misstu starf sitt við gjaldþrot Eyrarodda en þá var um þriðjungur vinnubærra manna á Flateyri atvinnulaus.

Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Lotnu er nú á Flateyri og hefur ráðið tuttugu og fimm manns til starfa. Þá reiknar hann með því að geta ráðið í fleiri störf á næstunni þar sem fleiri bátar, í eigu Lotnu, eru væntanlegir til þorpsins.

Þá verður 200 tonna skipinu Kristbjörgu ÁR, sem nú er skráð í Þorlákshöfn, siglt til Flateyrar og er væntanlegt þangað á laugardag.

Í dag munu svo fulltrúar MATÍS og fiskistofu koma til Flateyrar og kanna hvort skilyrði vinnsluleyfis er fyrir hendi. Ef allt gengur eftir má því gera ráð fyrir því að Kristbjörg og Stjáni Ebbi, sem Lotna eignaðist við kaupin á þrotabúi Eyrarodda, haldi á veiðar eftir helgi. Þá mun fiskvinnslan hefjast strax í kjölfarið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×