Viðskipti innlent

SA: Nýjar vegabætur skapa hundruð starfa

Nýjar arðbærar vegabætur munu bæta innviði landsins og skapa hundruð starfa. Þá auka framkvæmdirnar öryggi í umferðinni og spara þar með þjóðfélaginu stórfé á ári hverju.

Þetta kemur fram á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins (SA). Þar segir að umfangsmiklar vegaframkvæmdir séu eitt þeirra stóru og mikilvægu mála sem eru uppi á borðum samningsaðila í yfirstandandi kjaraviðræðum og kalla á aðkomu ríkisstjórnarinnar.

Samtök atvinnulífsins leggja á það höfuðáherslu að stórum fjárfestingarverkefnum í atvinnulífinu verði komið á skrið og í nýlegri aðgerðaáætlun ASÍ er lagt til að stórum framkvæmdum í samgöngumálum verði hrint í framkvæmd með stofnun félags í eigu ríkissjóðs sem taki lán hjá langtímafjárfestum til langs tíma.

Í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar í desember sl. er fjallað um þessi mál en þar segir að ríkissjóður muni bjóða út skuldabréfaflokk og afla þar með lánsfjár til að standa undir framkvæmdum næstu 5 ár fyrir andvirði allt að 40 milljörðum króna. Þungi framkvæmdanna verði á árunum 2012, 2013 og 2014, en á árinu 2011 er reiknað með framkvæmdum fyrir allt að 6 milljarða króna. Hin árin yrði upphæðin nær 10 milljörðum, en töluvert lægri árið 2015.

Alþingi hefur nú þegar veitt heimild til stofnunar hlutafélaga annars vegar um framkvæmdir á Suðvesturhorninu og hins vegar um Vaðlaheiðargöng. Ríkið mun veita báðum þessum félögum sérleyfi til framkvæmda og gjaldtöku. Í ljósi þessa er mikilvægt að hefja framkvæmdir sem allra fyrst eða undirbúning þeirra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×