Handbolti

Snorri: Norðmenn mæta dýrvitlausir til leiks

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar

Snorri Steinn Guðjónsson býst við afar erfiðum leik gegn Noregi í dag enda hafa síðustu leikir liðanna verið afar jafnir.

"Fjórir sigrar og það er enginn ástæða til annars en að vera bjartsýnn og stefna á sigur. Þetta er algjör lykilleikur og stig sem fara með okkur áfram. Við vitum hvað þarf til og ef við ætlum að mæta með hangandi haus eins og í fyrri hálfleik gegn Austurríki þá eigum við ekki séns," sagði Snorri.

"Það er engin spurning að við eigum meira inni og sérstaklega í sókninni. Við getum spilað hraðar og verið smurðari í sókninni. Ef við náum því þá lítur þetta enn betur út og þá veit maður aldrei hvað getur gerst."

Norðmenn hafa ekki verið upp á sitt besta á þessu móti en þeir geta bjargað miklu og komið sér í fína stöðu með sigri á Íslandi.

"Þeir eru með frábært lið og hafa verið lengi saman. Þeir mæta dýrvitlausir til leiks. Það hefur verið erfitt að mæta þeim hingað til og ég á ekki von á að það breytist," sagði Snorri sem fagnar því að það sé spilað fyrr núna en síðustu tveir leikir hófust 21.30 að staðartíma í Svíþjóð.

"Það var óskiljanleg ákvörðun hjá Svíunum að setja okkur á þessa tíma. Biðin eftir leikjunum hefur verið verst. Það er fagnaðarefni að spila klukkan sjö núna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×