Viðskipti innlent

Gengi krónunnar hefur veikst um 1,8% á árinu

Gengi krónunnar hefur lækkað nokkuð það sem af er ári. Frá áramótum nemur lækkunin 1,8% ef miðað er við viðskiptavegna gengisvísitölu krónunnar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að evran hafi farið á þessum tíma úr 153,8 kr. í 156,6 kr. og krónan því veikst um 1,8% gagnvart evru. Öllu minni hefur breytingin verið gagnvart dollaranum en hann kostaði 115,1 kr. um áramótin en kostar nú 116,8 sem er hækkun um 1,5% gagnvart krónu, en talsverð sveifla hefur verið á evru/dollar gengiskrossinum frá áramótum.

Ekki er hægt að svara því með óyggjandi hætti hvað hefur valdið lækkun krónunnar undanfarið. Nokkrir þættir koma hins vegar til greina. Kaup Seðlabankans á gjaldeyri er einn þáttur en bankinn hefur með kaupum sínum undanfarið verið að styrkja þann hluta gjaldeyrisforðans sem ekki er fenginn að láni og í leiðinni tekið nokkuð af því takmarkaða framboði sem hefur verið af gjaldeyri.

Á síðasta ári keypti bankinn gjaldeyri fyrir tæplega 30 milljarða kr. Af því voru 27,4 milljarðar kr. í desember og í tengslum við leiðréttingu á gjaldeyrisójöfnuði viðskiptabankanna.

Hlutdeild bankans af veltunni á millibankamarkaðinum með gjaldeyri var 82% á fimm síðustu mánuðum síðastliðins árs eða frá því að bankinn hóf regluleg kaup á gjaldeyri í ágúst.

Væntingar um að afnám hafta sé á næsta leiti kann að vera önnur skýring á þessari lækkun í gengi krónunnar sem verið hefur á árinu, en væntanleg áætlun Seðlabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og stjórnvalda um afnám hafta er boðuð fyrir lok febrúar. Tímasett áætlun á síðan að liggja fyrir áður en efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda rennur sitt skeið í ágúst næstkomandi.

Reikna hefði mátt með því að í því takmarkaða gjaldeyrisflæði sem er heimilt undir núverandi gjaldeyrishöftum yrði nokkur árstíðarbundin sveifla í gengi krónunnar. Þannig er innflæði gjaldeyris vegna ferðamannaþjónustu langmest á þriðja ársfjórðungi en hins vegar afar lítið á fyrsta ársfjórðungi. Var þjónustujöfnuðurinn þannig jákvæður á þriðja ársfjórðungi í fyrra um 35,3 milljarða kr. en neikvæður á fyrsta ársfjórðungi um 0,3 milljarðar kr. Má vera að þessi veiking krónunnar nú tengist þessu árstíðarbundna flæði að einhverju marki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×