Viðskipti innlent

Æskilegt að kljúfa sundur viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður. Mynd/ Stefán.
Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður. Mynd/ Stefán.
Þingmaður Sjálfstæðisflokks segir hagsmunaárekstra hugsanlega vegna samþættingar viðskipta- og fjárfestingarbankastarsfemi, líkt og við stofnfjárútboð Byrs Sparisjóðs. Hann segir æskilegast að kljúfa slíka starfsemi í sundur.

Glitnir banki tók að sér ráðgjöf og sölutryggingu við útboð á nýju stofnfé í Byr sparisjóði og Sparisjóði Norðlendinga undir árslok 2007, og gegndi þarmeð hlutverki fjárfestingabanka. Á sama tíma lánaði hann stofnfjáreigendum fé til kaupa á nýju stofnfé með veði í bréfunum, og gegndi þar með um leið hlutverki viðskiptabanka í ferlinu.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að æskilegt sé að kljúfa þessi hlutverk banka í sundur, þar sem áhættusækni í fjárfestingabankastarfsemi sé yfirleitt meiri en við viðskiptabankastarfsemi.

„Jafnframt geta komið fram hagsmunaárekstrar, líkt og í þessu sérstaka tilfelli, þar sem fjárfestingabankahliðin er að reyna að safna fjármunum fyrir viðskiptavin sinn, sem er þá einhver banki. Á meðan er viðskiptabankahliðin að lána inn í kaupin, svo menn sitja þá við tvær hliðar borðsins," segir Tryggvi.

Hann segir hugsanlegt að slíkir hagsmunaárekstrar hafi átt sér stað við stofnfjárútboðið. Hann vill þó ekki fullyrða um það, en segir að almennt geti verið óheppilegt að fjárfestingabankar og viðskiptabankar starfi undir sama þaki.

Í eigandastefnu ríkisins frá árinu 2009 kemur fram að fjármálastofnanir sem ríkið á hlut á skuli halda fjárfestingabankastarfsemi skýrt afmarkaðri frá grunnstarfsemi. Hins vegar var ekkert kveðið á um fullan aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabanka við endurskoðun á lögum um fjármálastofnanir síðasta sumar, en Tryggvi hefði talið það æskilegt.

„Eigendastefnan sem var unnin á vegum fjármálaráðuneytisins endurspeglaði þetta að nokkru, á meðan lög um fjármálafyrirtæki sem unnin voru í viðskiptaráðuneytinu endurspegluðu þetta ekki. Það hefði kannski mátt vera meiri samskipti þarna á milli," segir Tryggvi.

Hann segir Sjálfstæðismenn munu beita sér fyrir frekari endurskoðun á lögum um fjármálafyrirtæki. Þar verði þó ekki einblínt á aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, heldur þurfi að skoða málið í stærra samhengi með reynslu annarra þjóða og alþjóðastofnana að leiðarljósi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×