Viðskipti innlent

Viðskiptajöfnuðurinn jákvæður um 200 milljarða

Eftir hreinsun á efnahagsreikningi þjóðarinnar, það er taka banka í slitameðferð og Actavis út úr jöfnunni, er viðskiptajöfnuður landsins jákvæður um 200 milljarða kr. á ári. Þetta samsvarar 13% af landsframleiðslu (VLF) Íslands.

Greining Arion banka segir frá þessu í Markaðspunktum sínum þar sem fjallað er um ítarlega skýrslu Seðlabankans sem birt var í gær.

„Athygli vekur hversu gríðarlega sterk áhrif einstakt fyrirtæki, Actavis, hefur á bæði brúttó og nettó skuldastöðu við útlönd en ekki síður á viðskiptajöfnuð," segir í Markaðspunktunum.

„Fyrirtækið skuldar um 70% af VLF og virðast litlar eignir koma þar á móti eða um 20% af VLF. Neikvæðu áhrifin af þessu eina fyrirtæki á hreina skuldastöðu Íslands eru því um 50% af VLF, eða um 775 milljarðar króna. Ef fyrirtækið er tekið út er hrein skuldastaða landsins því neikvæð um 23% af VLF."

Þá segir að niðurstaða skýrslunnar gefi einnig til kynna að svigrúm Seðlabankans til gjaldeyriskaupa verði umtalsvert á næstu árum að því gefnu að allur sá gjaldeyrir sem verður til í gegnum væntan viðskiptaafgang skili sér til landsins.

„Hafi einhverjir klórað sér í hausnum vegna ríflega 13% styrkingar krónunnar á síðustu mánuðum ársins 2010, þá er nú komin ágætis skýring á þeirri þróun," segir í Markaðspunktunum.

„Án banka í slitameðferð var viðskiptajöfnuður neikvæður um 3,7% af VLF árið 2010.

Þegar búið er að gera ráð fyrir hlut erlendra kröfuhafa í gömlu bönkunum var viðskiptajöfnuðurinn hinsvegar jákvæður um 6,4% af VLF.

Þegar ennfremur er búið að taka Actavis út úr sviðsmyndinni er viðskiptaafgangurinn hvorki meira né minna en 13% af VLF sem gera um 200 milljarða kr. á ári

Ef matið í skýrslunni stenst er ljóst að afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum mun duga til að standa undir vaxta- og arðgreiðslum til erlendra aðila ásamt því að töluvert svigrúm verður til að greiða niður skuldir þjóðarbúsins."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×