Viðskipti innlent

Stærstu hjólaskóflur Volvo seldar á Íslandi

Stærstu hjólaskóflur Volvo hafa selst í fyrsta sinn á Íslandi. Þær verða notaðar við gangagerð í Þrándheimi í Noregi og Búðarhálsvirkjun. Um er að ræða tæplega 50 tonna tæknivæddar vinnuvélar.

Í tilkynningu frá Brimborg segir að Ístak hefur fest kaup á annarri stórri Volvo L350F hjólaskóflu hjá atvinnutækjasviði Brimborgar en kaupin koma í kjölfar kaupa á eins hjólaskóflu sem keypt var fyrir áramótin.

Fyrri hjólaskóflan verður notuð í verkefni sem Ístak vinnur í Noregi en sú sem nú var keypt verður notuð við framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Um mjög tæknilegar hjólaskóflur er að ræða sem verða notaðar við gangagerð.

Hjólaskóflan verður afhend í mars til Ístaks og verður hún notuð við gangagerðina en frá Sporðöldulóni verður aðrennslisskurður inn að Búðarhálsi þaðan sem vatnið fer um 4 km löng aðrennslisgöng að stöðvarhúsinu.

Volvo L350F hjólaskóflan mun tryggja mikil afköst við gerð afrennslisgangnanna. 7,1 rúmmetra skófla með hliðarsturtum tekur mikið efni í einu og hliðarsturturnar stuðla að því að hægt sé að tæma efni hratt og örugglega enda liggur mikið við að koma lausu efni frá bergstálinu svo hægt sé að sprengja á ný.

Þá er vinnuumhverfi stjórnanda vélarinnar afar tæknilegt og til að mynda er hægt að stýra gröfunni með stýripinna á meðan unnið er við að fjarlægja efni og því engin þörf á að notast við stýrishjólið. Þetta flýtir mikið fyrir vinnunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×