Viðskipti innlent

AGS: Stöðugleiki í höfn og bati framundan á Íslandi

Stöðugleiki er í höfn og bati í sjónmáli fyrir íslenska hagkerfið, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Batinn virðist þó ætla að verða hægari en búist var við, meðal annars vegna seinagangs við endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur birt ýmis gögn um fjórðu endurskoðun sjóðsins á efnahagsáætlun landsins. Í endurskoðuninni kemur fram að stöðugleika sé náð í íslenska hagkerfinu og bati sé í sjónmáli. Hann verði hins vegar minni á árinu 2011 en spáð var við síðustu endurskoðun sjóðsins, nú er tveggja prósenta hagvexti spáð í stað þriggja prósenta.

Ástæðan er einkum sögð vera sú að tafir hafi verið á stórum fjárfestingarverkefnum í orkufrekum iðnaði. Þá sé skuldavandi heimila og fyrirtækja einnig áhættuþáttur þegar kemur að hagvextinum, en báðir hópar hafi beðið með að endurskipuleggja skuldir sínar, þar sem þeir eigi sífellt von á ríkulegri aðgerðum frá ríkisstjórninni.

Sjóðurinn segir hægt hafa gengið að endurskipuleggja skuldir fyrirtækja, eða taka þau til skipta, þrátt fyrir að vanskil séu algeng. Þannig hafi hægagangurinn þau áhrif að fyrirtækin séu í óvissu varðandi skuldabyrði sína, og hindri það að framleiðsluþættir rati til lífvænlegra fyrirtækja.

Skuldastaða heimila sé svo erfið viðfangs vegna flækjustigs skuldana. Þá segir að ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hjálpi heimilinum tímabundið að eiga við skuldir sínar, en minna fari fyrir víðtækri endurskipulagningu skuldanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×