Handbolti

Guðmundur: Hlakka til að byrja

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar

Það hefur mikið mætt á Guðmundi Guðmundssyni landsliðsþjálfara síðustu daga enda undirbúningur fyrir HM stuttur og margt sem þarf að gera á þessum stutta tíma.

Guðmundur er þó ánægður með hvernig til hefur tekist að undirbúa liðið og fer nokkuð slakur inn í mótið.

"Mér líður vel. Við höfum undirbúið okkur eins vel og kostur er. Strákarnir eru einbeittir og við fengum góða æfingaleiki gegn Þjóðverjum sem gengu vel og það er því engin ástæða til þess að vera með óþarfa áhyggjur. Auðvitað er það samt þannig að það voru æfingaleikir en nú hefst alvaran og þar verðum við að standa okkur," sagði Guðmundur og bendir á að strákarnir þurfi að spila vel í dag til þess að leggja Ungverja enda séu þeir með gott lið.

Guðmundur segist sofa ágætlega á nóttunni þó stressið sé óneitanlega nokkuð mikið svona skömmu fyrir mót.

"Ég er fullur tilhlökkunnar að byrja mótið. Þetta er svipað og þegar maður er búinn að læra undir próf. Maður vill drífa sig í prófið," sagði Guðmundur léttur.

"Ég sef pottþétt vel í nótt. Ég sef samt ekki alltaf vel og sérstaklega þegar illa gengur."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×