Viðskipti innlent

Verðbólgan áfram í grennd við markmið Seðlabankans

Greining Íslandsbanka telur að verðbólgan muni haldast í grennd við 2,5% markmið Seðlabankans á næstunni. Eins og kunnugt er af fréttum mældist verðbólgan 1,8% í janúar og hefur ekki verið minni síðan árið 2003.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að útlit er fyrir nokkurn hækkunarþrýsting á vístölu neysluverðs næstu mánuði. Útsölulok, veiking krónunnar undanfarið og hækkun hrávöru- og eldsneytisverðs erlendis spila þar stærsta hlutverkið, ásamt áhrifum innlendra kostnaðarhækkana undanfarið.

Samanlagt gætu þessir þættir valdið allt undir 1,5% hækkun á vístölu neysluverðs næstu tvo mánuðina.

„Eftir sem áður teljum við hinsvegar að verðbólgan haldist í grennd við 2,5% markmið Seðlabankans á næstunni enda er slaki í hagkerfinu hvort sem litið er til vinnu eða vörumarkaðar þrátt fyrir hóflegan hækkunarþrýsting til skemmri tíma litið," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×