Viðskipti innlent

„Ekki hægt að stytta sér leið“

Olli Rehn (til hægri) og Árni Páll Árnason ræddu meðal annars hvernig framkvæmdastjórn ESB getur aðstoðað við afnám gjaldeyrishaftanna.Mynd/ESB
Olli Rehn (til hægri) og Árni Páll Árnason ræddu meðal annars hvernig framkvæmdastjórn ESB getur aðstoðað við afnám gjaldeyrishaftanna.Mynd/ESB

 Engin leið er fyrir Ísland að taka upp evruna eða fá stuðning Evrópska seðlabankans við krónuna nema með Evrópusambandsaðild og því að uppfylla skilyrði fyrir upptöku evru, segir Olli Rehn, efnahags- og peningastefnustjóri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

„Það er ekki hægt að stytta sér leið,“ sagði Rehn á fundi með fjölmiðlafólki eftir fund með Árna Páli Árnasyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, í Brussel í gær.

„Ísland þarf að ljúka aðildarviðræðunum, samþykkja aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og uppfylla skilyrði fyrir upptöku evrunnar eins og aðrir,“ sagði Rehn.

Hann fagnaði því að íslensk stjórnvöld væru að vinna að því takmarki, og bauð tæknilega aðstoð frá framkvæmdastjórn ESB til að ná því markmiði.

„Góður árangur íslenskra stjórnvalda í að koma á efnahagslegum stöðugleika hefur náðst, meðal annars með því að setja á gjaldeyrishöft. Frjálst flæði fjármagns er mikilvægt skilyrði fyrir aðild að Evrópusambandinu, og því þarf að afnema höftin,“ sagði Rehn.

Árni Páll fagnaði boði Rehns um aðstoð við afnám gjaldeyrishaftanna og undirstrikaði mikilvægi þess að afnema höftin á varfærinn hátt til að viðhalda stöðugleika krónunnar.- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×