Viðskipti innlent

Iceland Express: Hagsmunagæsla fyrir keppinautinn

„Við fögnum niðurstöðunni, en vinnubrögð Flugmálastjórnar hafa því miður verið með þeim hætti að unnið hefur verið að hagsmunagæslu fyrir okkar helsta keppinaut," segir Matthías Imsland forstjóri Iceland Express í tilefni af úrskurði Samkeppniseftirlitsins frá í gær.

„Það má segja að starfsmenn stofnunarinnar hafi með vísvitandi hætti reynt að raska samkeppni í áætlunarflugi hérlendis. Þá hafa þeir sent hugmyndir okkar um framtíðarsýn félagsins til keppinautar okkar til umsagnar, eins og það er kallað."

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express. Í úrskurðinum, sem gteint er frá á visir.is, segir meðal annars, að skilyrði nýlegrar ákvörðunar Flugmálastjórnar um leyfi til Astraeus, sem er flugrekstraraðili Iceland Express, hefði að óbreyttu komið í veg fyrir að félagið gæti boðið upp á áætlunarflug milli Keflavíkur og Winnipeg í Kanada næsta sumar.

Samkeppniseftirlitið hefur því beint þeim fyrirmælum til Flugmálastjórnar að breyta verklagi sínu við veitingu flugréttinda með það að markmiði að auka samkeppni í flugi til og frá Íslandi. Þá er Flugmálastjórn gert að upplýsa ekki flugrekendur hér á landi um samkeppnisáform annarra flugrekenda, íslenskra eða erlendra.

„Það hefur skekkt samkeppnisstöðuna gríðarlega, hvernig Flugmálastjórn hefur staðið í hagsmunagæslu fyrir okkar helsta keppinaut. Það er því fagnaðarefni að grípið skuli inní með þessum hætti," segir Matthias.

„Það er ekki eðlilegt að til þess að fá að stunda samkeppni á Íslandi þurfi að senda áformin til Icelandair til þess að þeir geti sagt Flugmálastjórn hvort þeir leggist gegn áformum okkar eða ekki."






Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×