Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar ekki lægra síðan í maí í fyrra

Raungengi krónunnar á mælikvarða neysluverðs lækkaði um 2,8% í janúar eftir að hafa lækkað um 1,0% í desember. Hefur raungengið ekki verið lægra síðan í maí í fyrra.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að raungengi krónunnar sé lágt eða um 19% undir meðaltali síðustu tíu ára svo dæmi sé tekið og 34% undir því sem það fór hæst í aðdraganda hrunsins, þ.e. á árinu 2007. Það var Seðlabankinn sem birti tölur um raungengið á föstudaginn var.

Þróun raungengisins endurspeglar þróun nafngengisins ásamt neysluverðsþróun hér á landi og erlendis. Lækkun raungengisins síðustu tvo mánuði er þannig til komin vegna þess að nafngengi krónunnar hefur verið að lækka og neysluverð einnig. Í desember síðastliðnum lækkaði nafngengi krónunnar um 0,8% á milli mánaða og verðlag hækkaði um 0,3%. Í janúar lækkaði nafngengi krónunnar um rúm 2% á milli mánaða og á sama tímabili lækkaði verðlag um 0,9%.

Þrátt fyrir að raungengið hafi lækkað síðustu tvo mánuði hefur það hækkað um 17% frá því að var lægst í kjölfar hrunsins í lok árs 2008. Raungengið er samt líkt og áður sagði enn lágt í sögulegu samhengi, sem gæti bent til þess að það muni hækka þegar fram líða stundir.

„Þá er raungengið enn að okkar mati nokkuð undir því gengi sem tryggir jafnvægi á utanríkisviðskiptum þjóðarbúsins, sem sýnir sig m.a. í þeim umtalsverða afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd sem var á síðasta ári en við áætlum að hann hafi verið um 170 milljarðar kr. eða 8% af landsframleiðslu," segir í Morgunkorninu.

„Hversu mikil raungengið mun hækka, að hve miklu leyti hækkunin mun eiga sér rót í hækkun á nafngengi krónunnar og hversu mikið í innlendu verðlagi og launum og hversu langur tími mun líða þar til þessi hækkun er komin fram hins vegar ómögulegt að segja til um með vissu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×