Viðskipti innlent

Eldsneytisverð: Allir búnir að hækka

Mynd úr safni

Olíufélögin Skeljungur og N-Einn hækkuðu bensínlítrann um þrjár krónur og 50 aura í gær. Olís, Atlantsolía og dótturfélög Skeljungs og Olís fylgdu í kjölfarið í morgun.

Þar með er bensínlítrinn kominn upp í 213 krónur í sjálfsafgreiðslu. Dísilolían var líka hækkuð og kostar lítrinn nú röskar 214 krónur. Olíufélögin benda á að tonnið af olíu hafi hækkað úr 760 dollurum upp í rúmlega 860 síðan fyrsta nóvember og á sama tímabili hafi bandaríkjadalur hækkað úr 112 krónum upp í rúmar 118, en olíuviðskiptin eru gerð í dollurum.

Nýjustu gjöld stjórnvalda á eldsneyti koma ekki að fullu inn í verðið fyrr en farið verður að selja úr nýjum förmum, að utan, þannig að þar blundar nokkurra króna hækkun til viðbótar.

Annars hefur eldsneyti hækkað víðasthvar á Vesturlöndum að undanförnu, sem meðal annars er rakið til mikilla kulda, og svo ákváðu olíuútflutningsríkin í Opec nýverið að auka ekki við framleiðsluna, en það hefði slegið á hækkanir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×