Viðskipti innlent

Talin bótaskyld vegna saknæms sinnuleysis

Viðskipti Ljóst er að bankastjórar og bankaráðsmenn Landsbankans sýndu af sér saknæma háttsemi með því að grípa ekki til ráðstafana til að tryggja að stórar fjárhæðir rynnu ekki úr bankanum eftir að ljóst var orðið að hann var ógjaldfær í byrjun október 2008. Með aðgerðaleysinu, og eftir atvikum beinum fyrirskipunum, hafa þeir bakað sér margra milljarða skaðabótaskyldu.

Þetta er fulllyrt í bréfi sem slitastjórn og skilanefnd Landsbankans hafa sent á bankastjórana tvo, Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, og fjóra fyrrverandi bankaráðsmenn; Andra Sveinsson, Kjartan Gunnarsson, Svöfu Grönfeldt og Þorgeir Baldursson.

Fréttablaðið hefur bréfið undir höndum. Það er fjórtán síður og í því er rakið í smáatriðum í hverju skaðabótaskyldan er talin felast. Bréfið er dagsett 4. febrúar og eru viðtakendum gefnar tvær vikur frá þeim degi til að láta uppi afstöðu sína til bótaskyldunnar.

„Verði bréfi þessu ekki svarað innan framangreinds frests má vænta þess að mál verði höfðað á hendur yður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til innheimtu skaðabóta án frekari fyrirvara," segir í lokasetningu bréfsins.



Keyptu á umtalsverðu yfirverði
Kjartan Gunnarsson
Brotin þrjú, sem sexmenningarnir eru sagðir bera ábyrgð á ásamt öðrum og sérstakur saksóknari hefur þegar til rannsóknar, eru útlistuð nákvæmlega í bréfinu.

Hið fyrsta snýr að kaupum bankans á skuldabréfum af dóttur­félaginu Landsvaka fyrir samtals 20 milljarða 6. október 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett. Viðskiptin voru fjórtán talsins og voru gerð frá níu að morgni til átta um kvöld.

Í bréfinu segir að ljóst sé að skuldabréfin hafi öll verið keypt „á umtalsverðu yfirverði", sem sé „óvenjuleg ráðstöfun" og tilefnislaus, og raunar liggi fyrir að hún hafi verið ólögleg, enda hafi verið búið að loka fyrir viðskipti með bréf í sjóðnum þegar þau áttu sér stað.

Ekki er lagt mat á tjónið af þessum gjörningi fyrir bankann að öðru leyti en að endurheimtur á kröfunum verði afar litlar og því sé ljóst að tjónið sé umtalsvert.

Vildu milljarða þrjár mínútur í Geir
Svafa Grönfeldt
Annað málið snýr að 7,2 milljarða endurgreiðslu á lánum sem Straumur hafði veitt kaupréttar­félögum bankans á aflandseyjum. Í samningi um þá lánalínu var áskilið að draga mætti á hana hvenær sem væri, en beiðnin þyrfti að berast fyrir klukkan 13.30 til að greitt yrði sama dag.

Beiðnin 6. október barst hins vegar ekki fyrr en klukkan 15.57, þremur mínútum áður en Geir H. Haarde flutti ávarp sitt til þjóðarinnar um neyðarlögin. Þrátt fyrir þetta voru 7,2 milljarðar greiddir út af reikningi Landsbankans hjá Seðlabankanum klukkan 18.38 þennan dag með samþykki Jóns Þorsteins Oddleifssonar, forstöðumanns fjárstýringar. Þá hafði stórgreiðslukerfi Seðlabankans verið lokað í rétt tæpa klukkustund.

Jón Þorsteinn hefur samkvæmt bréfinu borið að hafa samþykkt greiðsluna vegna þess að hann hafi ekki fengið nein fyrirmæli frá æðstu stjórnendum um að það mætti ekki.

Tjónið af þessum viðskiptum er metið á tæpa 4,4 milljarða.

Skiptu um skoðun á klukkustund
Þorgeir Baldursson
Þriðja málið snýr að 7,5 milljarða greiðslu til MP banka samkvæmt samningum um kaup á skuldabréfum í tengslum við endurhverf viðskipti við Seðlabankann. Þar var áskilið að MP banki mætti skila skuldabréfum sínum í Landsbankanum gegn greiðslu ef forsendur samningsins brystu.

MP banki óskaði eftir þessu klukkan 12.25 hinn 6. október. Klukkan 15.34 barst honum það svar frá lögfræðingi Landsbankans að bankinn hafnaði því mati að forsendur hefðu brostið. Klukkustund síðar kom svar frá öðrum lögfræðingi með tilkynningu um að Landsbankinn hefði fallið frá fyrri afstöðu og fallist á röksemdir MP.

Féð var greitt út af reikningi Landsbankans í Seðlabankanum klukkan 18.38, einnig samkvæmt fyrirmælum Jóns Þorsteins, jafnvel þótt samningurinn hafi kveðið á um að MP banki þyrfti fyrst að afhenda skuldabréfin. Það var ekki gert fyrr en tveimur dögum síðar.

Tjónið af þessu er metið á tæpa 6,8 milljarða króna.

stigur@frettabladid.is

Sigurjón Þ. Árnason
Halldór J. Kristjánsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×