Viðskipti innlent

Íbúðalánasjóður átti 1.070 íbúðir um áramótin

Íbúðalánasjóður eignaðist 723 íbúðir á nýliðnu ári. Fréttablaðið/pjetur
Íbúðalánasjóður eignaðist 723 íbúðir á nýliðnu ári. Fréttablaðið/pjetur
Íbúðalánasjóður keypti 723 íbúðir á nýliðnu ári og átti 1.070 íbúðir um áramótin. Þetta er þrjátíu íbúðum minna en áætlanir sjóðsins gerðu ráð fyrir. Þetta er rétt rúmlega þrefalt fleiri íbúðir en sjóðurinn átti í lok árs 2009 en þá átti hann 347 íbúðir.

Ásta H. Bragadóttir, fráfarandi aðstoðarframkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir niðurstöðuna nokkurn veginn á áætlun. Hún gerir ráð fyrir að aðgerðir stjórnvalda um lausn á skuldavanda heimilanna muni skila sér í því að sjóðurinn eignist færri íbúðir á þessu ári en í fyrra. Þá er búist við að fyrirhugað kaupleigukerfi valdi því að íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs fækki á árinu.

Gert er ráð fyrir að Íbúðalánasjóður eigi 882 íbúðir um næstu áramót. „Við höfum ekki formlega endurskoðað þær áætlanir,“ segir Ásta.

Staða sjóðsins var slæm skömmu fyrir áramótin. Eigið fé hans nam 10,1 milljarði króna í lok árs 2009 og stóð eiginfjárhlutfallið þá í 3,0 prósentum. Um mitt síðasta ár var eigið féð komið í 8,4 milljarða og stóð eiginfjárhlutfallið í 2,1 prósenti. Það á lögum samkvæmt að vera 5,0 prósent.

Alþingi samþykkti fyrir mánuði að bæta eiginfjárstöðu sjóðsins og veita til hans 33 milljarða króna. Upphæðin færist í ársreikning fyrir nýliðið ár. Vinna við gerð reikningsins stendur nú yfir. - jab





Fleiri fréttir

Sjá meira


×