Viðskipti innlent

Arion banki eignast líklega hlut í Refresco

Þorsteinn M. Jónsson
Þorsteinn M. Jónsson

Líklegt þykir að Arion banki gangi að veðum í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco í skuldauppgjöri Þorsteins M. Jónssonar við bankann.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 um helgina að Coca Cola á Spáni hafi samið um kaup á Vífilfelli, framleiðanda Coca Cola á Íslandi, og muni andvirði kaupverðsins ganga upp í skuldir Þorsteins og tengdra félaga hans við Arion banka.

Þorsteinn og félög hans, Sólstafir og Stuðlaháls, skulda Arion banka í kringum tíu milljarða króna. Fram kom hjá Stöð 2 að afkoma Vífilfells hafi verið góð í fyrra, rekstrar­hagnaður rúmur einn milljarður króna. Þeir sem Fréttablaðið hefur rætt við telja líklegt að kaupverð fyrirtækis á borð við Vífilfell geti numið í kringum þrjá til fjóra milljarða króna.

Vífilfell á fimm prósenta hlut í Refresco og er hann metinn á 21 milljón evra, jafnvirði þriggja milljarða króna. Eignarhluturinn mun ekki fylgja með í kaupunum á Vífilfelli.

Gangi þetta eftir gæti Arion banki fengið bróðurpartinn af skuldum Þorsteins, sex til sjö milljarða af um tíu. Þótt ekki fáist hún að fullu greidd munu stjórnendur Arion banka engu að síður vera sáttir við niðurstöðuna. Ekki náðist í Þorstein þegar eftir því var leitað. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×