Viðskipti innlent

Öðruvísi banki bíður eftir græna ljósinu

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Forsvarsmenn Sparibankans segjast leita eftir reynslu fyrrverandi forstjóra VBS Fjárfestingarbanka og þekkingar endurskoðenda hjá PwC við stofnun nýs banka. Hann mun starfa á öðrum forsendum en þekkist hér á landi. Fremst á myndinni er Arnar. Ingólfur og Hanna sitja gegnt honum.Fréttablaðið/Anton
Forsvarsmenn Sparibankans segjast leita eftir reynslu fyrrverandi forstjóra VBS Fjárfestingarbanka og þekkingar endurskoðenda hjá PwC við stofnun nýs banka. Hann mun starfa á öðrum forsendum en þekkist hér á landi. Fremst á myndinni er Arnar. Ingólfur og Hanna sitja gegnt honum.Fréttablaðið/Anton
Ingólfur H. Ingólfsson, sem kennt hefur fjölda manns að höndla fjármál sín síðastliðin níu ár, vinnur að stofnun banka að þýskri fyrirmynd. Bankinn mun heita Sparibankinn og byggir hann á þeirri hugmyndafræði sem Ingólfur hefur miðlað til fólks og hugbúnaði sem hann hefur þróað og ætlað er að auðvelda fólki að stýra útgjöldum sínum, byggja upp sparnað og eignir ásamt því að hraða uppgreiðslu lána.

Undirbúningur bankans hefur staðið yfir í á annað ár. Búið er að ráða Hönnu Björk Ragnarsdóttir sem framkvæmdastjóra og verður hún bankastjóri þegar bankinn kemst á laggirnar. Stefnt er á hlutafjárútboð á næstu vikum til að afla fimm milljóna evra, jafnvirði átta hundruð milljóna króna. Að því loknu verður sótt um viðskiptabankaleyfi fyrir reksturinn. Áætlanir standa til að dyr hans opni eftir um ár.

Meðal ráðgjafa sem komið hafa að undirbúningi eru Jón Þórisson, fyrrverandi forstjóri VBS Fjárfestingarbanka, og endurskoðendafyrirtækið PricewaterhouseCoopers, PwC.

VBS var umsvifamikill í svokölluðum ástarbréfaviðskiptum smærri fjármálafyrirtækja við Seðlabankann í aðdraganda bankahrunsins auk þess sem grunur leikur á því að skuldabréf sem VBS fjármagnaði hafi verið sett inn í eignastýringu bankans og áhættan því verið færð á herðar viðskiptavina.

Arnar Freyr Ólafsson, verkefnastjóri Sparibankans, segir forsvarsmenn Sparibankans hafa horft til reynslu Jóns á sviði viðskiptabankarekstrar. Hann hafi áður verið yfir viðskiptabankasviði Íslandsbanka og aðstoðarforstjóri um skeið áður en hann tók við fyrirtækjasviði og viðskiptaþróun hjá VBS árið 2006. „Við þurftum að hafa mann sem hefur stýrt í viðskiptabanka. Þótt hann hafi stýrt fjárfestingarbanka áður hefur hann mikla reynslu hjá viðskiptabanka," segir Arnar.

Arnar bætir við að málarekstur slitastjórna Glitnis og Landsbankans gegn PwC hafi ekki komið í veg fyrir að leitað hafi verið ráða hjá fyrirtækinu. „Það sem við höfum sótt eftir er ráðgjafaþjónusta hjá eintaklingum sem vinna hjá PwC. Það sem ráðgjafaþjónustan fólst aðallega í var uppbygging á viðskiptamódelinu. Þetta var mjög tæknileg ráðgjöf í endurskoðun. Til þess voru fengnir löggiltir endurskoðendur PwC."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×