Viðskipti innlent

Buðu 47,8 milljarða í Icelandic

Gagnrýni Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, segir slit á viðræðum við Triton ekki tengjast gagnrýni annarra áhugasamra kaupenda á söluferlið.Fréttablaðið/GVA
Gagnrýni Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, segir slit á viðræðum við Triton ekki tengjast gagnrýni annarra áhugasamra kaupenda á söluferlið.Fréttablaðið/GVA
Viðskipti Samningaviðræðum Framtakssjóðs Íslands og fjárfestingasjóðsins Triton um kaup þess síðarnefnda á erlendri starfsemi Icelandic Group hefur verið hætt. Triton bauð 300 milljónir evra í Icelandic eftir ítarlega skoðun, jafnvirði 47,8 milljarða króna. „Það náðist ekki saman um verð, tilboð sem Framtakssjóðnum barst frá Triton var ekki ásættanlegt,“ segir Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri sjóðsins. Carl-Evald Bakke-Jacobsen, meðeigandi í Triton, segir viðræðuslitin hafa komið verulega á óvart. „Við buðum verulega háa upphæð í Icelandic, mun hærra en aðrir eru tilbúnir að borga.“ Hann segir Triton hafa viljað nota Icelandic Group sem grunn að fisksölurisa á heimsvísu og ætlunin hafi verið að eyða háum fjárhæðum í að stækka fyrirtækið. Viðræður Framtakssjóðsins við Triton voru harðlega gagnrýndar af öðrum áhugasömum kaupendum, sem töldu söluferlið fjarri því að vera opið eða gagnsætt. Finnbogi segir að viðræðuslitin tengist ekki þeim gagnrýnisröddum. Bakke-Jacobsen er ekki sannfærður. Hann segir að þar sem tilboð Triton hafi verið mjög hátt sé erfitt að sjá ákvörðun um viðræðuslit sem annað en viðbrögð við þessari gagnrýni. Nú stendur til að setja verksmiðjur Icelandic í Bandaríkjunum og framleiðslustarfsemi í Kína í opið söluferli. Ekki stendur til að selja verksmiðjur í Evrópu, sölukerfi Icelandic um heim allan eða vörumerki félagsins. Bakke-Jacobsen segir það óráð að brjóta fyrirtækið upp. Á þessum markaði þurfi fyrirtæki að vera stór og öflug til að lifa af og skila hagnaði. - bj





Fleiri fréttir

Sjá meira


×