Viðskipti innlent

Víxlar: Ríkissjóði bauðst bestu vaxtakjörin hingað til

Ríkissjóður má vel við una miðað við niðurstöðu úr ríkisvíxlaútboðinu í gær, en umframeftirspurn hefur ekki verið jafn mikil síðan í maí á síðasta ári og vaxtakjör ríkissjóðs í útboðinu nú þau bestu sem honum hefur staðið til boða á innlendum skuldabréfamarkaði.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að fjárfestar reyndust áhugasamir um ríkisvíxlaútboðið sem haldið var hjá Lánamálum ríkisins (LR) í gær. Samkvæmt tilkynningu frá LR námu gild tilboð í víxlana, sem hafa gjalddaga þann 15. júlí næstkomandi, tæplega 18,5 milljörðum kr. að nafnvirði. Ákveðið var að taka tilboðum fyrir 10,6 milljarða kr. á 2,99% flötum vöxtum.

Í síðasta víxlaútboði þar sem í boði voru víxlar til 4ra mánaða voru vextir 3,4%. Vextir hafa lækkað með hverju útboði undanfarin misseri sem er í takti við þróunina á stýrivöxtum Seðlabankans. Að svo stöddu liggja enn ekki fyrir upplýsingar um af hvaða tagi kaupendur víxlanna voru.

Leiða má líkum að því að erlendir aðilar hafi verið atkvæðamiklir í útboðinu í gær líkt og að undanförnu. Þeir virðast enn sækjast í skammtímapappíra með ríkisábyrgð af þó nokkru kappi og áttu nóvemberlok um helming af þeim víxlum sem þá voru útistandandi.

Fjárhæð tekinna tilboða í gærdag var mun lægri en hún hefur verið að undanförnu sem er í samræmi við áætlun LR. Fyrirhugað er að lækka fjárhæð útistandandi víxla um 12 milljarða kr. á árinu og því samfara að fjölga útgefnum flokkum og er því fyrirsjáanlegt að staða hvers flokks muni að jafnaði lækka frá því sem var.

Eftir útboð gærdagsins hefur því heildarstabbi útistandandi ríkisvíxla minnkað úr 72,0 milljörðum kr. í 62,5 milljarða kr. Næstkomandi mánudag er ríkisvíxlaflokkur upp á 20,1 milljarð kr. á gjalddaga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×