Viðskipti innlent

Arion banki að ljúka endurreikningi erlendra íbúðalána

Arion banki hefur endurreiknað meirihluta erlendra íbúðalána bankans til einstaklinga og birt þeim niðurstöðuna í Netbanka Arion banka. Bankinn mun á næstu dögum halda áfram að birta viðskipavinum sínum endurútreikning erlendra lána eða allt fram til 26. febrúar næstkomandi en þá lýkur endurútreikningnum.

Í tilkynninug segir að í Netbanka Arion banka geta viðskiptavinir bankans kynnt sér til hlítar þær fjórar leiðir sem þeim standa til boða varðandi endurútreikning erlendra íbúðalána og metið hver þeirra hentar þeim best t.d. út frá greiðslubyrði eða heildargreiðslum á lánstíma. Rík áhersla hefur verið lögð á ítarlega og skýra framsetningu endurútreikningsins og þeirra fjögurra valkosta sem í boði eru til að auðvelda viðskiptavinum valið.

Endurútreikningur lánanna er í samræmi við lög sem samþykkt voru á Alþingi. Arion banki gengur þó lengra en lögin kveða á um þar sem öll íbúðalán einstaklinga í erlendri mynt verða endurreiknuð. Meðallækkun höfuðstóls erlendra íbúðalána hjá bankanum nemur um 35%, en breytingin ræðst fyrst og fremst af myntsamsetningu lánsins og lántökudegi.

Valkostir sem viðskiptavinum bankans standa til boða eftir endurútreikning erlendra íbúðalána eru eftirfarandi:

Leið 1: Óverðtryggt lán með jöfnum afborgunum. Leið 2: Verðtryggt lán með jöfnum afborgunum. Leið 3: Óverðtryggt jafngreiðslulán. Leið 4: Verðtryggt jafngreiðslulán.

Auk þessara leiða gefst viðskiptavinum kostur á því að halda óbreyttu láni, hvort sem um upphaflegt lán er að ræða eða nýttar hafa verið lausnir bankans.

Val á einhverri af ofangreindum leiðum þarf að liggja fyrir eigi síðar en 28. mars. Þeir sem eru ekki með Netbanka Arion banka fá niðurstöður endurútreiknings sendar bréfleiðis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×