Viðskipti innlent

Segist hafa aflétt leynd en Már neitar að veita svör

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Seðlabankinn vill fá skriflega staðfestingu frá Heiðari Má Guðjónssyni um að trúnaði á gögnum um söluferlið á Sjóvá hafi verið aflétt.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Seðlabankinn vill fá skriflega staðfestingu frá Heiðari Má Guðjónssyni um að trúnaði á gögnum um söluferlið á Sjóvá hafi verið aflétt.

Heiðar Már Guðjónsson sem fór fyrir hópi fjárfesta sem vildi kaupa Sjóvá segir að lögmenn sínir hafi aflétt leynd af öllum gögnum sem snerti hann og félög í hans eigu og tilkynnt það viðskiptanefnd Alþingis, en seðlabankastjóri hefur neitað að veita nefndinni upplýsingar um söluferlið.

Embættisfærsla Más Guðmundssonar í kringum söluferlið á Sjóvá hefur verið dregin í efa og skýringar hafa ekki fengist á því hvers vegna eignaumsýsla Seðlabankans neitaði að selja tryggingafélagið þeim hópi fjárfesta sem átti hæsta boðið í söluferlinu fyrr í haust. Heiðar Már Guðjónsson, sem fór fyrir fjárfestahópnum, hefur sakað bankann um valdníðslu og brot á stjórnsýslulögum og að inn í söluferlið hafi blandast persónuleg sjónarmið.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, hefur sagt í þinginu að vafi leika á því hvort Már Guðmundsson, seðlabankastjóri sé starfi sínu vaxinn og vísar þar til þeirra upplýsinga sem bankastjórinn neitaði að láta uppi um söluferlið á Sjóvá, en Már kom fyrir viðskiptanefnd Alþingis fyrir viku og bar fyrir sig trúnaði við mörgum þeim spurningum sem þar voru lagðar fram.



„Afléttum öllum trúnaði"


Gunnar Bragi kallaði eftir því á Alþingi í fyrradag að Már yrði settur af og ítrekaði þá kröfu sína í gær. Heiðar Már Guðjónsson, sem fór fyrir fjárfestahópnum, segir að lögmaður sinn hafi komið á fund viðskiptanefndar Alþingis og aflétt trúnaði og gefið leyfi fyrir því að upplýsingar sem snerta hann og félög í hans í eigu verði veittar nefndinni. „Gagnvart þingmannanefndinni þá afléttum við öllum trúnaði sem við kemur þessum málum því við vildum alls ekki að Seðlabankinn væri að bera fyrir sig einhvers konar þagnarskyldu gagnvart okkur því gagnvart þessari nefnd þá er hún ekki til staðar," segir Heiðar Már. Hann segir að formlega hafi verið farið yfir þetta á fundi nefndarinnar áður en fulltrúar Seðlabankans komu á fund hennar og nefndin hafi samþykkt þessa tilhögun.

Fréttastofa óskaði eftir viðbrögðum frá Seðlabankanum vegna málsins en í svari frá bankanum segir að Seðlabankinn hafi ekki fengið þær upplýsingar áður að lögmaður Heiðars Más hafi aflétt leynd. Þá hafi engin formleg staðfesting, þ.e skrifleg, borist bankanum um þetta. Berist slík staðfesting verði málið skoðað. Þá vill Seðlabankinn koma því á framfæri að Ríkisendurskoðun hafi fengið upplýsingar um söluferlið á Sjóvá eins og það stóð um áramót og ekki gert athugasemdir. Þá segir bankinn að það sé bankaráð Seðlabankans sem Alþingi kýs sem hafi eftirlit með starfsemi bankans.

Í ljósi þess síðastgreinda spurði fréttastofa hvort Seðlabankinn væri með þessu að segja að hann dragi í efa heimildir viðskiptanefndar Alþingis til að kalla eftir upplýsingum, en þau svör fengust að bankinn vildi á þessu stigi ekki tjá sig um hlutverk viðskiptanefndar Alþingis en ljóst væri að bankinn teldi sér ekki heimilt að afhenda viðskiptanefnd ákveðnar upplýsingar sem hún óskaði eftir. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×