Viðskipti innlent

Tveggja milljarða hagnaður af Icelandair

Á fundi Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri og Ágúst Einarsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands. Fréttablaðið/GVA
Á fundi Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri og Ágúst Einarsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands. Fréttablaðið/GVA

Viðskipti Fjárfesting Framtakssjóðs Íslands í Icelandair Group hefur skilað sjóðnum 2,2 milljarða króna hagnaði. Þetta er meðal þess sem Ágúst Einarsson, stjórnarformaður sjóðsins, kynnti á hluthafafundi hans í gær.

„Icelandair var okkar fyrsta fjárfesting á síðasta ári. Við fjárfestum þar fyrir 3,6 milljarða króna, en sú fjárfesting stendur núna í 5,8 milljörðum í bókfærðu virði,“ segir Ágúst. Markmið sjóðsins segir hann tvíþætt, að ávaxta fé hluthafa og taka þátt í endurreisninni. „Og hvað Icelandair varðar fóru þessi markmið algjörlega saman.“

Á hluthafafundinum upplýsti Ágúst einnig að lokið hafi verið öllum enda varðandi kaup sjóðsins á Vestia, eignarhaldsfélagi Landsbankans, sem nú á fjórðungshlut í Framtakssjóðnum, á móti lífeyrissjóðunum sextán.

Ágúst segir að Húsasmiðjan verði á næstunni sett í opið söluferli og að fyrir dyrum standi endur­skipulagning á fyrirtækjum innan upplýsinga- og fjarskiptageirans, sem nú heyri undir Teymi. Þau verði seld á næstu árum.

Viðræðum við evrópska fjárfestingarsjóðinn Triton segir Ágúst að ljúki fyrir mánaðamót.

„Þessar tölur sem Triton nefndi voru það háar að enginn hefur slegið þær út og við vildum kanna það í þaula. En við vitum svo sem ekki með niður­stöðu á því,“ segir hann. Náist ekki samkomulag kunni nálgunin að verða önnur þegar frekari skref verða tekin í sölunni á verksmiðjustarfsemi Icelandic Group. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×