Viðskipti innlent

Breytingar á efnahagsáætlun AGS og Íslands

Efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og íslenskra stjórnvalda virðist taka breytingum nú í kjölfar fjórðu endurskoðunar. Búið að bæta við fjórða markmiðinu sem er að tryggja þarf aðlögun skulda heimila og fyrirtækja með virkri þátttöku lánastofnana.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þar til nú hefur efnahagsáætlunin byggst upp á þremur meginþáttum sem hafa verið gengisstöðuleiki, uppbyggingu trausts fjármálakerfis og styrka stjórn fjármála ríkis og sveitarfélaga. S

amkvæmt tilkynningu Efnahags- og viðskiptaráðuneytisins sem birt er á heimasíðu ráðuneytisins byggir efnahagsáætlunin nú á fjórum meginþáttum. Fyrstu tveir eru eftir sem áður uppbygging trausts fjármálakerfis og jafnvægi í ríkisfjármálum. Nú er þriðja markmiðið að móta verður peningastefnu til frambúðar og taka frekari skref til afnáms gjaldeyrishafta.

Þá er búið að bæta við fjórða markmiðinu sem er að tryggja þarf aðlögun skulda heimila og fyrirtækja með virkri þátttöku lánastofnana. Athyglisvert verður að sjá þessi nýju atriði útfærð nánar, en á næstu dögum birtir AGS skýrslu sína í tengslum við fjórðu endurskoðun og þá er ný viljayfirlýsing stjórnvalda í tengslum við þennan áfanga líklega væntanleg innan tíðar eins og venjan hefur verið við fyrri endurskoðanir.

Efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda er nú rúmlega hálfnuð. Enn eru eftir 3 ársfjórðungslegar endurskoðanir og gangi allt eftir mun samstarfinu við sjóðinn ljúka formlega í ágúst næstkomandi, að því er segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×