Enski boltinn

Leicester og Man City þurfa að mætast aftur

Elvar Geir Magnússon skrifar

Leicester og Manchester City þurfa að mætast aftur til að skera úr um hvort liðið fer áfram í FA-bikarnum. Liðin gerðu 2-2 jafntefli á heimavelli Leicester í dag.

Lið Leicester situr í tólfta sæti ensku B-deildarinnar og barðist fyrir jafnteflinu í dag, liðið átti ekki skilið að tapa leiknum.

Þess má geta að stjóri Leicester, Svíinn Sven-Göran Eriksson, var þjálfari Roberto Mancini, stjóra Man City, í átta ár hjá Sampdoria og Lazio á Ítalíu.

Strax á fyrstu mínútu leiksins komst Leicester yfir þegar Sol Bamba, sem gekk nýverið í raðir félagsins, skoraði. James Milner jafnaði fyrir City eftir laglegan samleik við Carlos Tevez.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks sýndi Carlos Tevez snilli sína þegar hann setti boltann snyrtilega í netið og City komið með forystuna. En það var Andy King sem skoraði verðskuldað jöfnunarmark fyrir Leicester á 64. mínútu eftir sjaldséð mistök markvarðarins Joe Hart.

Bæði lið hefðu getað tryggt sér sigurinn eftir það. City bjargaði á línu og markvörður Leicester bjargaði meistaralega. Úrslitin jafntefli 2-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×