Viðskipti innlent

Grunnhugmyndin í sjálfu sér ekki flókin

Arnór Sighvatsson
Arnór Sighvatsson
Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri segist skilja gagnrýni á flækjustig hinnar svokölluðu fjárfestingarleiðar bankans en segir grunnhugmyndina þó ekki flókna.

Fjárfestingarleiðin er skref í áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta. Hún felur í grunninn í sér að bankinn mun standa fyrir gjaldeyrisútboðum þar sem hann kaupir erlendan gjaldeyri í skiptum fyrir krónur til innlendrar fjárfestingar. Þannig gefst eigendum aflandskróna tækifæri til að nota þær til fjárfestinga hér. Hefur leiðin verið gagnrýnd fyrir að vera of flókin, síðast af Gylfa Magnússyni, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í síðustu viku.

„Að vissu leyti skil ég þessa gagnrýni vel því skjalagerðin öll er flókin. Hún er flókin vegna þess að þar eru alls konar varnaglar sem taka á þeim sniðgöngumöguleikum sem leiðin gefur færi á og þarf að stemma stigu við,“ segir Arnór og heldur áfram: „Hins vegar er grunnreglan í þessu ekki flókin. Flestar tegundir fjárfestingar eru þarna opnaðar og það er alveg skýrt. Menn þurfa að koma með 50 prósent í erlendum gjaldeyri á móti krónunum til þess að tryggja að þetta verði í heild sinni hlutlaust gagnvart gjaldeyrisforðanum.“

Þá segir Arnór að hann hafi ekki orðið var við að þetta hafi verið að vefjast fyrir þeim einstaklingum sem hafi verið í sambandi við Seðlabankann varðandi leiðina. - mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×