Erlent

ESB rannsaki aðstæður í Tíbet

Dalai lama
Dalai lama
Kínversk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir að hleypa eftirlitsfólki frá Evrópusambandinu til Tíbet til að kynna sér aðstæður þar.

Tilefni þessa er að á dögunum hvatti Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, sem heyra undir Kína, Cathrine Ashton, utanríkismálastjóra ESB, til þess að senda fólk á vettvang.

EUobserver hefur eftir Dalai Lama að ESB gæti veitt Kína mikið aðhald með slíkum ferðum. „Ef Kína hafnar hins vegar slíkum sendinefndum getur ESB vakið athygli á málinu á alþjóðavettvangi, meðal annars fyrir mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna.“

Kínverjum sé umhugað um orðspor sitt og geti því ekki komist hjá frelsis- og lýðræðisumbótum.

Kínverski landsstjórinn í Tíbet, Zhu Weiqun, sem var í Brussel í vikunni, sagði hins vegar að Kína væri fullvalda ríki sem hefði fulla stjórn á innanríkismálum sínum.

„Ég held ekki að íhlutun erlendra aðila yrði uppbyggileg,“ sagði hann við EUobserver.

„Það gæti þvert á móti leitt til aukins óróa og jafnvel stríðs.“

Zhu bætti því við að hann skildi ekki hví ESB væri að skipta sér af innanríkismálum í Kína. Samskipti milli ESB og Kína séu sérstaklega mikilvæg nú, í ljósi skuldavanda ESB-ríkja.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×