Viðskipti innlent

Öll efnahagsmálin sett undir eina stjórn

Steingrímur J. Sigfússon segist vilja skoða sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Steingrímur J. Sigfússon segist vilja skoða sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að í fyllingu tímans geti verið skynsamlegt að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Hann efast þó um að rétti tíminn til þess sé upp runninn; nóg annað sé við að fást þótt ekki komi til skipulagsbreytingar.

Ráðherra segir að miðað við stærð íslenska hagkerfisins sé skynsamlegt að hafa boðleiðir stuttar. Sameining stofnananna gæti því verið skynsamleg. „Það er betra að sameina kraftana heldur en að dreifa þeim. Lykileiningar í hagkerfinu verða að vinna saman og við verðum að beita öllum kröftum í sameiningu að efnahagsvörnum. Við þurfum að vera betur á verði gagnvart áhættumörkum en við vorum á sínum tíma.“

Steingrímur segir mikilvægt að menn þori að endurskoða þessi mál og horfa til framtíðar. Hann segir endurskipulagningu stjórnarráðsins ekki komna á endapunkt. Rétt sé að stefna að færri en öflugri ráðuneytum.

„Við gerðum rétt í því að sameina ábyrgð og forræði á efnahagsmálum á einn stað. Þá hefur verið í kortunum að búa til öflugt atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti og styrkja umhverfisráðuneytið, með umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Það mundi ýta undir hugmyndafræði sjálfbærrar nýtingar.

Við eigum að horfa á þetta með sama hugarfari og þegar við komum velferðarráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu á fót. Það hefur skilað árangri og hagræðingu að sameina stóra málaflokka.“

-kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×