Handbolti

Nítján ár síðan Ísland fór síðast á stórmót án Ólafs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson sendir inn á línuna í leik á móti Frökkum.
Ólafur Stefánsson sendir inn á línuna í leik á móti Frökkum. Nordic Photos / Getty Images
Lengi hefur verið tvísýnt um þátttöku landsliðsfyrirliðans Ólafs Stefánssonar á Evrópumótinu í Serbíu í byrjun næsta árs.

Langvinn hnémeiðsli héldu honum frá keppni með danska liðinu AG fyrstu þrjá mánuði ársins en þegar hann sneri aftur í síðustu viku glöddust íslenskir handboltaáhugamenn enda töldu flestir að hann yrði með í janúar.

Ólafur sjálfur er hins vegar farinn að tala um það opinberlega að best sé fyrir hann að taka sér hvíld á EM og einbeita sér að því að koma sér í gott form fyrir verkefni vorsins með AG og ekki síst hjá íslenska landsliðinu sem mun reyna að vinna sér sæti á Ólympíuleikunum í forkeppni leikanna í apríl.

Það þarf að fara langt aftur til þess að finna stórmót hjá íslenska karlalandsliðinu þar sem Ólafur Stefánsson er ekki með. Það gerðist nefnilega síðast á HM í Svíþjóð árið 1993 og síðan þá hefur Ólafur tekið þátt í fimmtán stórmótum í röð.

Gengi íslenska liðsins hefur líka verið frábært á þessum tíma. Ólafur hefur verið í aðalhlutverki á fjórum af fimm bestu stórmótum íslenska landsliðsins og Ólafur hefur verið með í sjö af ellefu stórmótum þar sem íslenska landsliðið hefur verið meðal þeirra sjö hæstu.

Ólafur var reyndar ekki eins áberandi og áður á síðustu tveimur stórmótum og flestum mótum þar á undan en mikilvægi hans er þó óumdeilanlegt.

Hann er andlegur leiðtogi strákanna og hefur enn alla burði til þess að gera út um leiki með útsjónarsemi sinni og reynslu.

Ólafur hefur leikið 101 af 106 leikjum íslenska landsliðsins á stórmótum frá og með árinu 1995 og hefur því aðeins misst af fimm leikjum á HM, EM á Ól á þessum 19 árum. Ólafur hefur skorað 483 mörk í þessum 101 leik eða 4,8 mörk að meðaltali í leik. Hann skoraði fimm mörk að meðaltali í leik á átta stórmótum í röð frá 2001 til 2007 og hefur skorað fjögur mörk eða meira á tíu þessara móta.

Það verður örugglega skrýtið fyrir íslenska handboltaáhugamenn að sjá engan Ólaf Stefánsson meðal strákanna okkar í Serbíu í janúar. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sefur örugglega ekki betur og ætli íslenska liðið sér langt á mótinu þurfa aðrir leikmenn liðsins að fylla í stórt skarð á hægri vængnum. Það kemur samt alltaf að þeim tímapunkti að landsliðsskórnir hans Ólafs fara upp í hillu. EM í Serbíu gæti því verið góð æfing fyrir þann tíma þegar besti handboltamaður Íslandssögunnar kveður íslenska landsliðið endanlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×