Innlent

Gagnrýna díoxínmælingar vegna sorpbrennslu í Funa

Steingrímur Jónsson felldi bústofn sinn eftir að Funamálið kom upp. Hann og fleiri bíða svara frá Matvælastofnun um framtíð búreksturs á jörðinni. mynd/halldór sveinbjörnsson
Steingrímur Jónsson felldi bústofn sinn eftir að Funamálið kom upp. Hann og fleiri bíða svara frá Matvælastofnun um framtíð búreksturs á jörðinni. mynd/halldór sveinbjörnsson
Bæjarráð Ísafjarðar gerir alvarlegar athugasemdir við niðurstöður Umhverfisstofnunar (UMST) og Matvælastofnunar (MAST) hvað varðar díoxínmælingar á jarðvegi í Engidal í Skutulsfirði. Ísfirðingar segja ósamræmi í niðurstöðum sem þurfi að skýra. Stofnanirnar segja að mælingar þeirra lúti ekki að sömu atriðum og því sé ekki um ósamræmi að ræða.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri á Ísafirði, skrifaði stofnununum tveimur í október þar sem segir að Ísafjarðarbær og íbúar í Skutulsfirði, og þó einkum þeir er búa og/eða starfa í Engidal, eigi „skýlausan rétt til þess, að þessar tvær opinberu stofnanir samræmi niðurstöður sínar hvað þetta mál varðar. Við svona misvísandi niðurstöðurverður ekki búið, niðurstöður sem hefta allt atvinnulíf á þessu tiltekna landsvæði, ef til vill að ástæðulausu.“

Í stuttu máli var það niðurstaða mælinga UMST að magn díoxíns kalli ekki á takmarkanir á nýtingu eða skapi hættu fyrir almenning og lífríki. Almenningur þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að rækta í jarðvegi, tína ber eða nýta aðrar náttúruafurðir, eins og það var orðað.

Í svari UMST til sveitarfélagsins segir að þessi niðurstaða snerti ekki á fóðuröflun fyrir dýr ætluð til manneldis, enda sé það í verkahring Matvælastofnunar að skera úr um þetta atriði.

Matvælastofnun komst að þeirri niðurstöðu að jarðvegssýnataka hafi ekki verið fullnægjandi og því er bann á nýtingu landsins til fóðuröflunar fyrir dýr til manneldis í gildi.

Í svari MAST til sveitarfélagsins segir að stofnunin telji „að sýnataka Umhverfisstofnunar hafi ekki leitt í ljós með óyggjandi hætti, hvort mengun sé á yfirborði lands í Engidal og geti borist þaðan í búfé og í afurðir“.

Spurður um ósamræmið sem bæjarstjórinn skrifar um segir Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður hjá MAST, að stofnunin leggi ekki mat á hversu vel var staðið að sýnatöku Umhverfisstofnunar enda markmið þeirrar sýnatöku ekki það sama og Matvælastofnunar.

„Matvælastofnun telur mjög mikilvægt að fá úr því skorið hvort enn sé díoxínmengun í ryki á yfirborði jarðar og á gróðri sem svo berst í búfé og í afurðir. Strax í mars/apríl var lagt til og ákveðið að gera beitartilraun til að ganga úr skugga um þetta. Tilrauninni er nú lokið og er nú beðið eftir niðurstöðum úr mælingum og þá verður vonandi unnt að taka ákvörðun um nýtingu beitilands, fóðuröflun og nýtingu búfjárafurða og þar með ljúka málinu,“ segir í svarbréfi Sigurðar við fyrirspurn Fréttablaðsins.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×