Innlent

Áflog í íslensku flokkunum

Hanna Birna og Bjarni Benediktsson.
Hanna Birna og Bjarni Benediktsson.
Formannsskipti í íslenskum stjórnmálaflokkum hafa yfirleitt farið fram án mikilla átaka, í það minnsta fyrir opnum tjöldum. Þá hafa flokksformenn oftast getað verið rólegir yfir stöðu sinni þar sem fátítt hefur verið að sitjandi formenn fái mótframboð gegn sér.

Sem dæmi má nefna að í 82 ára sögu Sjálfstæðisflokksins hefur sitjandi formaður einungis fimm sinnum fengið mótframboð, þar af í fyrra og á landsfundi nú um helgina. Verði Bjarni endurkjörinn verður hann fyrsti formaður stjórnmálaflokks á Íslandi sem hefur þrisvar sinnum sigrað annan frambjóðanda í formannskjöri. Þó ber að taka fram að lengi vel voru formenn í stóru flokkunum ekki valdir í almennri kosningu á landsfundi. Þá er það hefð í kosningum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að allir fundargestir eru í raun í kjöri.

Nokkur merkileg formannskjör hafa þó farið fram og verður hér stiklað á stóru um formannsslagi í íslenskri stjórnmálasögu.

Hermann felldi Jónas og átök í AlþýðuflokkiSegja má að fjórflokkakerfið svokallaða hafi þegar verið komið fram í alþingiskosningunum 1931. Þá buðu fram Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Kommúnistaflokkur. Nokkrum árum síðar klauf Bændaflokkurinn sig frá Framsókn en í kosningunum 1942 var fjórflokkurinn aftur kominn fram nema þá hafði Kommúnistaflokkurinn sameinast hluta Alþýðuflokksins í Sósíalistaflokknum.

Fyrsti formaður fjórflokks sem settur var af var Jónas Jónsson frá Hriflu. Jónas varð formaður Framsóknar árið 1934 en í ríkisstjórnum sem flokkurinn veitti forystu á árunum 1934 til 1942 var Hermann Jónasson forsætisráðherra, ekki Jónas. Sagt var að þingmenn flokksins hefðu óttast að Jónas yrði of einráður sem forsætisráðherra auk þess sem Alþýðuflokksmenn, sem mynduðu stjórnina ásamt Framsókn, voru ekki hrifnir af þeirri tilhugsun að Jónas yrði forsætisráðherra. Á landsfundi flokksins árið 1944 kaus miðstjórn hans svo Hermann formann í stað Jónasar sem hafði þótt ganga full hart fram í málflutningi sínum misserin á undan.

Næstu ár sátu flokksformenn á friðarstóli en upp úr 1950 fór að gæta talsverðra væringa í Alþýðuflokknum. Fór svo að lokum að Hannibal Valdimarsson felldi Stefán Jóhann Stefánsson úr sessi árið 1952 en var svo sjálfur felldur tveimur árum síðar.

Stefán Jóhann hafði verið formaður frá árinu 1938 og var forsætisráðherra á árunum 1947 til 1949. Stuðningsmenn Stefáns voru í helstu valdastöðum flokksins árið 1952 en talsverðrar óánægju gætti með forystuna meðal almennra flokksmanna. Þótti Stefán hafa misst eldmóðinn og vera í litlum tengslum við verkalýðshreyfinguna. Var Hannibal fenginn til að bjóða fram gegn honum og hafði öruggan sigur.

Formannstíð Hannibals varð hins vegar stutt. Hann gerðist ritstjóri Alþýðublaðsins meðfram formannsstörfum og ritaði þar um stefnu flokksins dag frá degi. Hann hafði hins vegar lítið samband við aðra flokksmenn auk þess sem Stefán Jóhann og stuðningsmenn hans unnu gegn honum. Þegar nálgaðist landsfund 1954 virtist hann njóta lítils stuðnings í flokknum og fór svo að Haraldur Guðmundsson, gamalreyndur þingmaður, tók við sem formaður um hríð.

Átök í SjálfstæðisflokknumJóhann Hafstein lét af formannsembætti í Sjálfstæðisflokknum árið 1973 vegna heilsubrests. Við af honum tók Geir Hallgrímsson varaformaður, sem látið hafði af embætti borgarstjóra nokkrum mánuðum fyrr eftir þrettán ára setu. Geir var kjörinn varaformaður árið 1971 eftir hatramma baráttu við Gunnar Thoroddsen sem hafði snúið aftur í stjórnmálin eftir skamma veru í Hæstarétti og tap í forsetakosningunum 1968.

Geir varð forsætisráðherra eftir kosningar 1974 og sat í fjögur ár. Í kosningunum 1978 tapaði flokkurinn hins vegar miklu fylgi, ekki síst vegna erfiðs ástands í efnahagsmálum, og fór í stjórnarandstöðu. Árið eftir fékk Geir mótframboð á landsfundi, fyrstur formanna Sjálfstæðisflokks. Gegn honum bauð sig fram Albert Guðmundsson, þá borgarfulltrúi og þingmaður og fyrrverandi knattspyrnuhetja. Albert hafði þó ekki erindi sem erfiði og vann Geir léttan sigur.

Í kjölfar þingkosninga í desember 1979 gekk flokksformönnunum bölvanlega að mynda ríkisstjórn. Fór svo að lokum að Gunnar Thoroddsen, þá varaformaður, klauf Sjálfstæðisflokkinn og myndaði ríkisstjórn með Framsókn og Alþýðubandalagi með hluta þingflokksins á bak við sig.

Árið 1981 var aftur komið að landsfundi og settu deilur vegna klofningsins mikinn svip á fundinn. Þá bauð Pálmi Jónsson, landbúnaðarráðherra og einn þingmannanna sem mynduðu stjórnina með Gunnari, sig fram til formanns gegn Geir. Sigraði Geir örugglega í formannskosningunum, fékk tæp 66 prósent atkvæða. Pálmi fékk rúm 20 prósent og Ellert B. Schram tæp 10 prósent.

Geir sat sem formaður í tvö ár til viðbótar en fékk slæma útreið í prófkjöri fyrir þingkosningar 1983 og náði ekki kjöri á þing. Hann lét í kjölfarið af embætti formanns og á landsfundi haustið 1983 var kosinn nýr formaður; Þorsteinn Pálsson, þá alþingismaður. Hlaut Þorsteinn tæp 57 prósent atkvæða en Friðrik Sophusson, þá varaformaður, fékk tæp 27 prósent. Þá fékk Birgir Ísleifur Gunnarsson, þá alþingismaður og fyrrverandi borgarstjóri, tæp 17 prósent.

Tveir formannsslagir í AlþýðubandalaginuÍ Alþýðubandalaginu var regla að formaður skyldi ekki sitja lengur en í átta ár í senn. Árið 1987 þurfti Svavar Gestsson að láta af formannsembætti vegna þessa. Á þeim tíma geisuðu mikil átök í flokknum milli tveggja fylkinga sem kallaðar voru „flokkseigendafélagið" og „lýðræðiskynslóðin". Svavar tilheyrði þeirri fyrri en meðal forkólfa þeirrar seinni var Ólafur Ragnar Grímsson. Í formannskjöri um haustið bauð Ólafur Ragnar sig fram og háði tvísýna kosningabaráttu við Sigrúnu Stefánsdóttur, þá bæjarfulltrúa á Akureyri. Fór svo að Ólafur Ragnar hafði sigur í kjörinu með rúm 60 prósent atkvæða.

Átta árum síðar var aftur kominn tími til að skipta um formann og aftur tókust á sömu fylkingar. Þá buðu sig fram til formanns Margrét Frímannsdóttir, þá þingmaður, sem talin var til stuðningsmanna Ólafs Ragnars og Steingrímur J. Sigfússon sem var í Svavars-armi flokksins og hafði verið varaformaður í sex ár. Voru kosningarnar enn tvísýnni en árið 1987 en aftur var það sami armur sem bar sigur úr býtum. Margrét hlaut 53,5 prósent atkvæða gegn 46,5 prósentum. Varð Margrét þar með fyrst kvenna formaður eins fjórflokkanna.

Svilar í hár samanSíðustu ár hafa formannsslagir einnig sett svip sinn á pólitíkina á Íslandi. Árið 2005 bauð Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sig fram gegn svila sínum Össuri Skarphéðinssyni, þá formanni Samfylkingarinnar. Ingibjörg hafði leitt R-lista samstarfið í Reykjavík frá 1994 til 2003 og verið farsæll borgarstjóri. Árið 2003 fór hún í landsmálin og var stillt upp sem forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar fyrir þingkosningar það ár. Flokkurinn jók fylgi sitt í kosningunum en náði þó ekki þeim árangri sem að hafði verið stefnt og komst ekki í ríkisstjórn. Á landsfundinum 2005 var Ingibjörg þó kosin formaður með um tvo þriðju atkvæða.

Ári síðar fór fram formannskjör í Framsóknarflokknum. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sagði af sér formennsku um vorið eftir slakan árangur flokksins í sveitarstjórnarkosningum. Var kosið á milli Sivjar Friðleifsdóttur, þá heilbrigðisráðherra, og Jóns Sigurðssonar, sem ekki hafði starfað í fremstu víglínu stjórnmálanna áður en hafði verið virkur innan flokksins um áratugi. Vann Jón sigur í kjörinu með tæpum 55 prósentum atkvæða gegn rúmum 44.

Tíð formannsskipti urðu í flokknum árin á eftir en næst fór fram formannskjör árið 2009 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nýgræðingur í stjórnmálum, var kjörinn formaður. Einnig voru í framboði Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, og Höskuldur Þór Þórhallsson þingmaður. Þegar úrslit voru tilkynnt urðu hins vegar mistök og var Höskuldur ranglega kynntur sem nýr formaður.

Sama ár var Bjarni Benediktsson kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins eftir kjör gegn Kristjáni Þór Júlíussyni þingmanni. Á landsfundi flokksins í fyrra var Bjarni síðan endurkjörinn, þá gegn Pétri Blöndal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×